Gular veðurviðvaranir taka gildi um landið sunnan- og vestanvert sem og á miðhálendinu klukkan 21 annað kvöld og á Suðausturlandi nokkrum klukkustundum síðar, eða um miðnætti.
Lögreglan vakti athygli á fyrstu haustlægðinni á vef sínum í gær og hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám.
Búist er við suðaustlægri átt 3-10 metrum á sekúndu og að það verði skýjað með köflum í dag. Hvassast verði með suðvesturströndinni og léttir til norðaustanlands í kvöld.
Á morgun verði hægt vaxandi suðaustanátt 13-20 metrar á sekúndu og rigning seinni partinn en hægari og bjartviðri norðaustantil. Þá bætir í vind annað kvöld. Hiti verður á bilinu 10 til 17 stig.
Búist er við suðaustan stormi og rigningu annað kvöld og fram á laugardag. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum og huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Höfuðborgarsvæðið:
Suðaustan hvassviðri, 13-20 metrar á sekúndu og rigning. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Suðurland:
Suðaustan hvassviðri eða stormur, 15-23 metrar á sekúndu með rigningu. Hvassast verður og úrkomusamast við ströndina og undir Eyjafjöllum. Búast má við hviðum undir Eyjafjöllum að 40 metrum á sekúndu. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og huga þarf að lausamunum.
Faxaflói:
Suðaustan hvassviðri eða stormur, 15-23 metrar á sekúndu með rigningu. Hvassast verður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Búast má við hviðum að 40 metrum á sekúndu. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og huga þarf að lausamunum.
Breiðafjörður:
Suðaustan hvassviðri eða stormur, 15-23 metrar á sekúndu með rigningu. Hvassast verður á norðanverðu Snæfellsnesi en úrkomusamast á Barðaströnd. Búast má við hviðum að 40 metrum á sekúndu. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og huga þarf að lausamunum.
Vestfirðir:
Suðaustan hvassviðri eða stormur, 15-23 metrar á sekúndu með rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll allt að 40 metrum á sekúndu sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.
Suðausturland:
Suðaustan hvassviðri eða stormur, 15-25 metrar á sekúndu með rigningu, jafnvel talsverðri rigningu. Hvassast í Mýrdal og í Öræfum með hviðum yfir 40 metrum á sekúndu. Búast má við sandfoki og er fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.
Miðhálendið:
Suðaustan stormur, 18-25 metrar á sekúndu með rigningu en heldur hægari og úrkomuminna norðan Vatnajökuls. Varasamar eða hættulegar aðstæður fyrir ferðamenn og útivistarfólk. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.