„Það má nú segja að þetta séu mjög metnaðarfullar hugmyndir af hálfu matvælaráðherrans,“ segir Teitur Björn Einarsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið, spurður álits á hugmyndum matvælaráðherra um hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi, uppboði á hluta aflaheimilda o.fl.
Teitur Björn segir það fyrsta sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætli að gera, sé að bera saman hugmyndir ráðherrans og texta stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um málefnið. „Mér sýnist á kynningunni á þessum hugmyndum að ýmislegt þar rúmist mjög illa innan marka sáttmálans,“ segir hann og kveðst gera alla fyrirvara um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem samrýmast ekki því sem í sáttmálanum kemur fram.
Í stuttum kafla um sjávarútvegsmál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að skipuð verði nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfsins. Henni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga á frekari árangri og samfélagslegri sátt um umgjörð greinarinnar. Nefndinni er einnig ætlað að fjalla um hvernig hægt sé að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og meta árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í byggðum landsins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.