„Það er gripið úr lausu lofti,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Ríkisútvarpins, í samtali við mbl.is um hinn rótgróna þjóðmálaþátt Silfrið sem ekki sést á haustdagskrá stofnunarinnar í fljótu bragði.
Fjallar Samstöðin um þetta meinta messufall undir fyrirsögninni Þingið kallað saman 12. september – en ekki Silfrið og bendir á að vaninn hafi verið að Silfrið hæfi göngu sína um svipað leyti og þing er kallað saman að hausti.
„Það er einfaldlega þannig að Silfrið er ekki komið á dagskrá vegna þess að akkúrat þessa dagana erum við að vinna að því að gera ákveðnar breytingar á Silfrinu sem er kannski ekki alveg tímabært að segja frá hverjar verða,“ heldur dagskrárstjóri áfram og bætir því við að vegna breytinganna sé óvíst að Silfrið verði á sama stað í dagskrá.
„Silfrið mun sannarlega snúa aftur síðari hluta september þegar það liggur fyrir í hvaða mynd við viljum hafa það, þetta [töfin á Silfri haustsins] er vegna skipulagsmála og Silfrið mun snúa aftur, vonandi sterkara fyrir vikið, það hefur verið á sama tíma í mörg ár og með sama sniði og nú er bara kominn tími til að hrista aðeins upp í þættinum,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson að lokum af málefnum Silfursins.