Vara við stórstreymisflóði samhliða lægðinni

Ölduspá Vegagerðarinnar klukkan 21 á laugardagskvöld. Gert er ráð fyrir …
Ölduspá Vegagerðarinnar klukkan 21 á laugardagskvöld. Gert er ráð fyrir allt að 8-10 metra ölduhæð suðvestur af landinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Stórstreymt verður á morgun og sjávarstaða há. Samkvæmt útreikningum verður um að ræða hæsta stórstreymisflóð ársins, en fyrir Reykjavík reiknast flóðhæðin 4,6 metrar.

Landhelgisgæslan vekur athygli á þessu í tilkynningu og vísar einnig til þeirra viðvarana sem Veðurstofan hefur gefið út fyrir morgundaginn, vegna yfirvofandi hvassviðris á sama tíma.

Hvetur til aðgæslu við sjávarsíðuna

Gera megi ráð fyrir að samhliða lægðinni verði nokkuð þung alda og áhlaðandi með suður- og vesturströndinni, sem geri sjávarhæð mögulega hærri en framangreindir útreikningar gefi til kynna.

„Þá er ágætt að hafa í huga að á þessum árstíma eru síðdegisflóðin hærri en morgunflóðin,“ segir í tilkynningu Gæslunnar.

Hvetur Gæslan til aðgæslu við sjávarsíðuna og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert