Veittu styrki og fögnuðu 800 römpum

Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi og tók þátt …
Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi og tók þátt í viðburði Römpum upp Ísland. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Rampur númer 800 var vígður af forsvarsfólki ríkisstjórnarinnar á Egilsstöðum í dag að loknum sumarfundi. Hafa nú alls 46 rampar verið byggðir á Austurlandi.

Haraldur Ingi Þorleifsson, forsprakki verkefnisins, og sveitarstjórnarfólk á Austfjörðum voru einnig viðstödd athöfnina og héldu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson ræður.

Sumarfundir ríkisstjórnarinnar hafa undanfarin ár verið haldnir utan Reykjavíkur en þetta er í sjötta sinn sem það er gert. 

Að hefðbundnum fundi loknum fundaði ríkisstjórnin með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi og voru fjölmörg málefni til umræðu, þ.á.m. atvinnumál, orkumál, samgöngumál, öryggismál, heilbrigðismál og opinber þjónusta á svæðinu.

Styrkir veittir til uppbyggingar á Seyðisfirði

Var samþykkt á fundinum að framlengja verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði sem ráðist var í í kjölfar hamfaranna í desember 2020. Verður verkefnið stutt um 25 milljónir króna sem bætast við þær 215 milljónir sem þegar hafa verið veittar í byggðastyrk.

Þá var samþykkt að veita viðbótarstyrk vegna flutnings menningarsögulegra húsa á Seyðisfirði af hættusvæðum. Verður verkefnið styrkt um alls 200 milljónir króna en fjárhæðin bætist við þær 190 milljónir sem þegar hafa verið veittar til verkefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert