Stór hluti erlendra ríkisborgara sem hér býr tímabundið skiptir líklega nokkrum tugum þúsunda og ólíklegt er að þessi hópur hafi verið spurður um afstöðu sína til húsnæðismarkaðarins. Þetta er hópur sem er líklegri til að vera á leigumarkaði en séreignamarkaði og nauðsynlegt er að sinna honum til að reyna að draga úr því að fólki sé þjappað þröngt saman í óviðunandi húsnæði.
Þessu svarar Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra gagnrýni Samtaka iðnaðarins á stefnu stjórnvalda, þegar kemur að því að fjölga leiguhúsnæði með opinberum stuðningi hlutfallslega meira en leiguíbúðum á vegum einkaaðila, eða séreignarhúsnæði á komandi árum.
Samtökin gerðu athugasemdir við áherslu ríkisins í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu í síðustu viku. Kom þar fram að áætlað væri að fjölga leiguíbúðum sem byggðar eru með opinberum stuðningi um 85% til ársins 2032 þannig að þær fara úr 9.500 í 17.600 íbúðir.
Á sama tíma er gert ráð fyrir að að öðrum leiguíbúðum fjölgi úr 24.600 í 27.700, eða um 13%. Þá er gert ráð fyrir að séreignarhúsnæði fjölgi úr 128.300 íbúðum í 152.100, en það er um 18,5% fjölgun.
Var vísað í nýlega könnun Prósents þar sem kom fram að aðeins 10% aðspurðra sem eru á leigumarkaði vilji vera þar og ríflega 72% sögðust vera þar af illri nauðsyn.
Með þeim breytingum sem ríkið og sveitarfélög horfa til, færi hlutfall leiguíbúða í heild úr 21% upp í 23%.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, ítrekaði þetta í erindi sínu á Húsnæðisþinginu í gær og sagði ekki rétt að tala um íbúðirnar sem „hagkvæmar íbúðir,“ líkt og ríki og sveitarfélög hafa gert. Sagði hann að réttnefnið væri niðurgreiddar íbúðir. Þá sagði hann að frekar en að stefna að því að fjölga hlutfalli leiguíbúða í 23% ætti frekar að stefna að því að þær yrðu hlutfallslega færri, eða um 15%.
Sigurður Ingi segir þetta ekki lýsa allri sögunni. „Það er staðreynd að hér búa 70 þúsund íbúar af erlendum uppruna. Um 20 þúsund eru íslenskir ríkisborgarar, en 50 þúsund er fólk sem að er hér að stórum hluta tímabundið. Það fólk var örugglega ekki spurt í skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins, en það er samt að stórum hluta á vinnumarkaði og við viljum ekki hafa það í húsnæði eins og var á Bræðraborgarstíg,“ segir Sigurður Ingi.