„Við erum að borga meiri í lán og kostnað í íslensku fjármálakerfi en hin Norðurlöndin. Íslenskir bankar hafa hagrætt meira en hin Norðurlöndin. Þá á vaxtamunurinn að vera minni á Íslandi. Við neytendur eigum að fá þessa hagræðingu til okkar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra.
Var hún innt eftir viðbrögðum bankastjóra úr íslensku bankakerfi sem töldu m.a. vaxtamun lítinn hér á landi sem og að þeir voru nokkuð ánægðir með útkomu samanburðar við hin Norðurlöndin. Vísu þeir þar í skýrslu starfshóps, um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna í norrænum samanburði. Lilja hafði frumkvæði að skýrslugerðinni.
„Það er ekki til að hrósa sér fyrir að vaxtamunurinn sé lítill. Vaxtamunurinn á fyrirtækjunum er mun meiri en á heimilin. Ástæðan er sú að lífeyrissjóðirnir bjóða upp á fasteignalán en fyrirtækin geta ekki sótt í það og vaxtamunurinn gagnvart fyrirtækjunum er mikill og það er ekki hægt að skýla sér á bakvið það að heimilin séu að borga minna,“ segir Lilja. Hún bendir á að þessi mikli fjármagnskostnaður fyrirtækja fari út í vöruverð sem aftur er verðbólguhvetjandi.
Hún segir einn lið í því að lækka kostnað neytenda sé vinna að nýju greiðslumiðlunarkerfi. „Íslendingar eru að borga 1.43% af landsframleiðslunni í hana. Með þessu sparast strax 10 milljarðar króna. Það er heilmikill peningur,“ segir Lilja.
„Arðsemi bankanna hefur aukist verulega. Farið úr einhverjum 5% í 14% hjá Arion banka t.a.m,“ segir Lilja og telur bankana hafa tækifæri til að lækka kostnað neytenda.