Félag atvinnurekenda telur sterkar vísbendingar þess efnis að samráð Samskipa og Eimskips hafi valdið fyrirtækjum í Félagið atvinnurekenda skaða og íhugar stöðu sína gagnvart skipafélögunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda:
„Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa, sem birt var í gær, veitir að mati Félags atvinnurekenda sterkar vísbendingar um að með ólöglegu samráði hafi stóru skipafélögin tvö valdið félagsmönnum FA, fyrirtækjum í innflutningi og útflutningi, stórfelldu tjóni og orðið til þess að mun hærra verð var greitt fyrir flutninga en ef eðlileg samkeppni hefði ríkt á flutningamarkaðnum á því tímabili sem fjallað er um í ákvörðuninni. FA hvetur félagsmenn sína af því tilefni til að íhuga vel stöðu sína gagnvart skipafélögunum og hvort unnt verði að fá tjónið bætt,“ segir í tilkynningu.