Netkerfi Brimborgar að komast á ról

Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar.
Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir ganga framar vonum að koma tölvukerfi fyrirtækisins aftur í gagnið eftir netárás sem Brimborg varð fyrir aðfaranótt þriðjudags. 

„Við vorum komin með 80-90% virkni á öll kerfi í gær, 48 klukkustundum eftir að við hófum vinnuna,“ segir Egill, ánægður með hversu vel hefur gengið, en hann bindur vonir við að kerfið verði komið í samt lag í lok dags. 

Öllum gögnum læst

„Það er búið að byggja öll kerfi upp á nýtt og við höfum náð öllum gögnum til baka,“ segir Egill og þakkar gríðarlega hröð viðbrögð þeirra sem komið hafa að vinnunni. 

Í netárásinni var öllum gögnum fyrirtækisins læst, en þökk því að Brimborg hafði unnið eftir góðum afritunarferlum, var hægt að þurrka út öll gögnin og keyra þau aftur inn í kerfið, til þess að ná þeim af þeim sem gerðu árásina. 

Nú hefur því tekist að ná öllum gögnum til baka og koma tölvukerfinu að mestu upp að nýju, segir Egill og næstu skref því að komast að því hvernig þeir sem gerðu árásina komust inn í kerfin.

Styrkja varnir

Hann segir mikilvægt að vita hvernig brotist var inn í kerfin til þess að hægt sé að styrkja varnirnar enn betur, en samhliða vinnunni hafa allar varnir verið styrktar. Egill reiknar með að sú vinna klárist á næstu dögum, enda búið að raða upp 90% af tímalínunni.

Þá verður jafnframt haldið áfram að rannsaka hvort einhver gögn hafi farið út úr húsi. Egill segir vísbendingar benda til þess að svo hafi ekki verið, en leggur áherslu á að það verði áfram rannsakað svo hægt sé að staðfesta hvort svo sé.

Óvíst hvort árásin verði kærð

Netöryggissveit Cert-is verið upplýst um allt sem gerðist til þess að hún geti varað önnur fyrirtæki við, en Egill segir mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að aðrir lendi í því sama og Brimborg. 

Egill segir ekki ljóst hverjir gerðu árásina þó hún hafi líklega verið gerð erlendis frá. Brimborg tilkynnti árásina strax til persónuverndar og Cert-is, en Egill segir enn ekki ákveðið hvort árásin verði kærð til lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert