Rafbílar munu hækka verulega í verði á Íslandi

Breytingar eru fyrirhugaðar um áramót.
Breytingar eru fyrirhugaðar um áramót. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafbílar hækka að óbreyttu umtalsvert í verði í byrjun næsta árs þegar undanþága fellur úr gildi.

„Í lok þessa árs fellur virðisaukaskattsívilnun niður en hún felur í sér að kaup á rafbílum, sem kosta 5,5 milljónir eða minna, fela ekki í sér virðisaukaskatt. Ef bíll kostar 5,5 milljónir væri virðisaukaskatturinn um 1,3 milljónir og eftir áramótin mun sá bíll kosta 6,8 milljónir ef fram heldur sem horfir,“ segir Jónas Kári Eiríksson, forstöðumaður vörustýringar hjá bílaumboðinu Öskju.

Sala á rafbílum aukist um 64%

Jónas segir að gefið hafi verið í skyn að stjórnvöld ætli að koma til móts við þá sem vilja festa kaup á rafbílum með öðrum hætti en skattaívilnun en ekki liggi fyrir hvað það verði.

„Þegar maður starfar í bílageiranum þá er slík óvissa óþægileg því oft eru gerðar áætlanir langt fram í tímann. Ástandið hefur reyndar batnað frá því í heimsfaraldrinum hvað það varðar að algengara er að bílasölur geti nú afgreitt bíla strax. En þeir viðskiptavinir sem vilja einhverja sérstaka útfærslu, og þurfa því að leggja inn pöntun, eru í kapphlaupi við tímann ef þeir vilja tryggja sér rafbíl fyrir áramót.“

Rafbílar eru nú býsna stór hluti nýrra bíla í bílaflotanum hérlendis. „Segja má að góður gangur hafi verið í orkuskiptum og á þessu ári hefur sala á rafbílum á Íslandi aukist um 64% á heildina litið. Markaðshlutdeild rafbíla í nýskráningum á Íslandi er 65% ef frá eru taldar bílaleigur,“ segir Jónas enn fremur.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert