Starfsmenn Félagsstofnunar stúdenta hafa í dag hreinsað og tekið til á sorptunnusvæði við Sögu, stúdentagarða FS við Hagatorg. Sorp flæddi upp úr tunnum á svæðinu og var mikið af dóti og drasli í kring.
Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri og upplýsingafulltrúi FS, segir í samtali við mbl.is að mikill álagstími sé um þessar mundir og að FS, ásamt Reykjavíkurborg, sé enn að finna taktinn hvað varðar sorpmálin.
„Það á að vera búið að tína upp ruslið fyrir óveðrið sem kemur í kvöld,“ segir Heiður Anna.
Heiður Anna segir margar ástæður geta verið fyrir því að af og til skapast aðstæður sem þessar við stúdentagarðana.
„Það er örugglega ekki tæmt nógu oft þarna. Svo eru íbúarnir margir hverjir að flytja að heiman í fyrsta skipti og það þarf stundum að kenna íbúum hjá okkur hvernig á að henda rusli. Svo eru margir að flytja inn og út og það er kannski að henda stærri pappakössum í papparuslið. Hlutir eru ekki að rata á réttan stað,“ segir Heiður Anna.
Á myndunum má einmitt sjá borðstofustóla sem ekki eiga heima með heimilisrusli, pappa eða plasti.
Heiður Anna segir FS einnig hafa haft veður af því að aðrir en íbúar séu að nota tunnurnar og telji þetta vera grenndarstöð.
„Sem þetta er náttúrulega alls ekki,“ segir Heiður Anna. 111 íbúðir eru á Sögu og því 111 íbúar. „Við fylgjumst vel með svæðinu, en þetta gerist rosalega hratt. Tunnurnar eru fljótar að fyllast,“ segir Heiður Anna.
„Saga er náttúrulega nýtt húsnæði og þetta sorpfyrirkomulag sem er núna er ekki komið til að vera. Það verða settir niður djúpgámar þarna en það verkefni helst í hendur við framkvæmdir í húsinu. Áætluð verklok eru ekki fyrr en á næsta ári,“ segir Heiður Anna.
Hún segir koma til skoðunar hvort fjölga þurfi tunnum við húsið á meðan framkvæmdum stendur.