Vilja draga úr samkeppnishindrunum á flutningamarkaði

Gámar frá Eimskip og Samskip.
Gámar frá Eimskip og Samskip. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið hefur gefið út álit þar sem mælst er til þess að ráðast í aðgerðir til að draga úr samkeppnishindrunum á flutningamarkaði, skapa aðhald og efla með því samkeppni.

Með álitinu er beint tilmælum til innviðaráðherra, Faxaflóahafna, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga, um aðgerðir sem m.a. eru til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á vöruverð á fjölmörgum sviðum, almenningi og fyrirtækjum til hagsbóta.

Í álitinu eru dregnar ályktanir af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023, Brot Samskipa gegn banni við ólögmætu samráði. Í ákvörðuninni er gerð grein fyrir alvarlegum brotum Samskipa vegna samráðs við Eimskip og mælt fyrir um aðgerðir til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig.

Ákvörðunin varpar ljósi á mikilvægi þess að stjórnvöld grípi til aðgerða sem eru til þess fallnar að efla samkeppni á flutningamarkaði. Er það meðal annars mikilvægt vegna hækkana á vöruverði síðustu mánuði og ríkjandi aðstæðna í íslensku efnahagslífi.

Með hliðsjón af framangreindu mælist Samkeppniseftirlitið m.a. til eftirfarandi:

  • Að stjórnvöld og hlutaðeigandi opinberir aðilar tryggi aðgengi nýrra og minni keppinauta í sjóflutningum að fullnægjandi hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu hér á landi.
  • Að stjórnvöld skapi aðstæður fyrir aukna samkeppni í landflutningum, m.a. í tengslum við aðgerðir sem mælt er fyrir um í ákvörðun nr. 33/2023.
  • Að hugað sé að leiðum til að skapa aukið aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert