Gýs líklegast eftir áramót

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir aðspurður að reikna megi með nýju eldgosi á Reykjanesskaganum á komandi mánuðum eða ári í ljósi þess land er tekið að rísa að nýju á svæðinu við Litla-Hrút.

Þorvaldur segir það ekki koma á óvart að landris sé hafið á svæðinu en eins og greint var frá í Morgunblaðinu fyrr í dag er þetta í fyrsta sinn sem landris af þessari stærðargráðu mælist svo snemma að loknu gosi á Reykjanesskaganum. 

Í miðjum eldum

Þorvaldur tekur fram að ómögulegt sé að segja til um hvenær nákvæmlega fjórða eldgosið á svæðinu muni hefjast en bendir á að það gæti gerst eftir nokkra mánuði.

„Það getur tekið einhverja mánuði jafnvel ár að byggja upp þrýstinginn til að koma kviku upp á yfirborð. Það verður hugsanlega einhvern tímann á næsta ári, fyrst þetta er komið í þetta mynstur. Kemur þetta ekki bara þegar ferðamannafjörið er byrjað?“ segir Þorvaldur kíminn.

Á svæðinu í kringum Fagradalsfjall hefur gosið þrisvar á síðustu árum og yrði væntanlegt eldgos í kjölfar landriss það fjórða í röðinni. Þorvaldur segir að í raun megi búast við enn fleiri gosum á komandi árum.

„Við erum í þessum miðjum eldum. Dæmigerðir eldar eru oft á bilinu fimm til tíu gos,“ segir hann og bætir við að það megi gera ráð fyrir því að fjöldi gosa á Reykjanesskaganum á núverandi tímabili eldsumbrota á svæðinu verði á því bili.

Á endanum fari jörðin að skjálfa aftur

Spurður hvort það megi búast við því að jörð fari að skjálfa á Reykjanesskaganum fljótlega fyrst að landris er hafið eins og gerst hefur í aðdraganda síðustu eldgosa á svæðinu segir Þorvaldur að það gerist líklegast ekki um leið.

„Á endanum fer að skjálfa en ætli þetta verði ekki til friðs fram yfir jól. Þegar yfirþrýstingurinn er orðinn meiri og kvikan safnast fyrir í ákveðnu magni þá fer að aukast spennumyndun í skorpunni og þá getur hún brotnað og skjálftar orðið til. Það er dálítið í það held ég.“

Gosrás á svæðinu viðheldur eldsumbrotum

Hann segir aðfærsluæð undir yfirborðinu vera eina helstu ástæðuna fyrir því að búast megi við síendurteknum eldsumbrotum á Reykjanesskaganum á næstu árum.

„Það er búið að búa til aðfærsluæð fyrir kvikuna. Það er komin ákveðin opnun og búið að setja kviku inn í gang og ef það er kvika þarna niðri að safnast saman þá eykur hún þrýstinginn þarna niðri.

Gangurinn er náttúrulega ekki frosinn enn sem komið er svo kvikan getur farið að færa sig upp eftir honum. Á meðan þessi gosrás er til staðar finnst mér líklegt að gos endurtaki sig á þessum stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert