Fannst látinn eftir slys

Maðurinn fannst látinn seint í gær. Á myndinni er horft …
Maðurinn fannst látinn seint í gær. Á myndinni er horft til fjalla í Eyjafjarðardölum. mbl.is/Sigurður Bogi

Maður sem hafði verið í smalamennsku innarlega í Eyjafirði og slasast um þrjúleytið í gær fannst látinn í gærkvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Björgunarsveitir voru kallaðar út klukkan 15.00 vegna mannsins sem hafði slasast hátt uppi í hlíðum Hagárdals að norðanverðu.

Erfiðlega gekk að komast til mannsins og ekki var hægt að notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem komin var norður, vegna misvinda í dalnum og mikils uppstreymis. Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn seint í gærkvöld var maðurinn látinn. 

Málið í höndum lögreglu

Tók þá við flókin fjallabjörgunaraðgerð sem krafðist aðstoðar björgunarsveita úr Skagafirði og Þingeyjarsýslu. Flytja þurfti manninn niður 500 metra í brattri hlíð og bera hann tæplega þrjá kílómetra niður dalinn þar sem flutningstæki var staðsett. 

Aðgerðum í Hagárdal lauk upp úr klukkan 23.00 í gærkvöldi. Ekki er unnt að fá nánari upplýsingar um tildrög andlátsins að svo stöddu en það er í rannsókn lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert