„Þetta er rétt að byrja,“ segir Haraldur Eiríksson, leigutaki Laxár í Kjós og Hítarár. „Nú er að renna upp tími aðstæðna til veiða. Maður er búinn að glápa á vatnið frá 2. júlí og bíða eftir réttum aðstæðum. Þær eru rétt svo að koma núna miðað við veðurspána.“
Rigningarspá fram undan vekur vonir, ekki síst í Kjósinni. „Ég er búinn að vera með 4-600 laxa í september í 2-3 ár og nú á ég ennþá meira inni þannig að ég reikna með því að þetta geti orðið eitthvað ef guð lofar. Það fer eftir því hvort við fáum rigningu og milt veður.“
Almennt um sumarið segir Haraldur. „Bara vonbrigði. Það er mat þeirra sem eru við Kjósina að þar sé ekkert minna af fiski en í fyrra. Hins vegar höfum við þurft að horfa á hann fram til þessa. Það stendur vonandi til bóta en maður missir svokallaðan besta tíma, hann fer út um gluggann í vatnsleysi.“
Í Hítaránni stefnir í slakt meðalár, sem er það sem margir leigutakar þurfa að horfast í augu við þessa dagana. „Við vorum ekki með virka vatnsmiðlun þetta árið, höfðum hana opna, hún mun aldrei taka hausthrotu eins og Kjósin á til. Við vonumst til að við fáum góðan september. Þetta er saga sumarsins. Einhvern veginn fór það fyrir lítið út af aðstæðum.“
Haraldur telur að þurrkatíðin nú muni ekki hafa áhrif á veiði næsta árs. „Við fengum þetta 2019 og þar á undan 2016. Þetta er komið til að vera að við lendum í svona aðstæðum með nokkurra ára millibili. Það eru miklar breytingar í veðráttu. Það var oft sagt í gamla daga að ef þér líkaði ekki veðrið á Íslandi ættirðu að bíða í tíu mínútur, núna þarftu að bíða í tíu vikur. Það er af sem áður var að maður fór niður í bæ í skrúðgöngu á 17. júní og það var sól fyrir hádegi en rigning eftir hádegi.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í gær, 2. september.