„Þarna slær mitt hjarta“

Helga Vala Helgadóttir og Dagbjört Hákonardóttir á góðri stundu.
Helga Vala Helgadóttir og Dagbjört Hákonardóttir á góðri stundu. mbl.is/mbl.is

Dagbjört Hákonardóttir, persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar, mun taka sæti Helgu Völu Helgadóttur á Alþingi. Hún hefur verið virk í Samfylkingunni síðan árið 2002 og hefur ferill í pólitík alltaf heillað hana.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er gífurlega spennt fyrir þessum áskorunum. Ég hef áður komið inn sem varaþingmaður og ég veit hvað leikurinn snýst um. Þetta er auðvitað lifandi og skemmtilegur vinnustaður. Það er með mikilli auðmýkt sem ég tek við þessu verkefni sem mér er falið,“ segir Dagbjört í samtali við mbl.is.

Vill vera í baráttunni

Dagbjört hefur lengi verið virk í Samfylkingunni, eða síðan árið 2002 þegar hún byrjaði í ungliðahreyfingu flokksins. Hún lagði pólitíkina aðeins til hliðar eftir að hún útskrifaðist sem lögfræðingur en segir hana þó alltaf hafa heillað sig.

„Ég bý að reynslu sem að ég veit að mun nýtast inn í þingflokkinn og inn í þingheim. Þetta hefur alltaf heillað mig. Þarna slær mitt hjarta, að vera í baráttunni. Algjörlega,“ segir Dagbjört.

Dagbjört er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem persónuverndarfulltrúi …
Dagbjört er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar frá árinu 2018. Ljósmynd/Aðsend

Ástfangin af Evrópuhugsuninni

Dagbjört var formaður Ungra Evrópusinna og er hún enn mikill Evrópusinni. Spurð hvað henni finnist um að Evrópusambandsaðild sé ekki enn þá eitt af kjarnamálum Samfylkingarinnar segir hún:

„Það er alls ekkert óeðlilegt að Samfylkingin, sem stór og breiður jafnaðarmannaflokkur, sem við viljum vera, setji þau mál á dagskrá sem við teljum raunhæft að ná fram. Það þarf að koma hlutum í verk hérna. Það er ekki nógu mikil sátt í íslensku samfélagi um það að ganga í Evrópusambandið til þess að Samfylkingin geti komið fram og sagt ætla að lofa því að það muni raungerast,“ segir Dagbjört og bætir við:

„Ég er einlægasti og sennilega elsti Evrópusinninn á þessu Alþingi. Ég geng til liðs við Unga jafnaðarmenn árið 2002 vegna þess að ég er ástfangin af Evrópuhugsuninni. Ég mun aldrei hætta því. Samfylkingin er mjög gott heimili fyrir Evrópusinna, en það er líka pláss fyrir fólk sem er efins og það er allt í lagi. Það er algjörlega mér að skapi að deila stjórnmálaflokknum mínum með því fólki.“

Félagshyggjukona og femínisti

Stærstu málin að mati Dagbjartar á næsta þingvetri verða verðbólgan og heilbrigðismálin. Spurð hvaða málefni hún muni vilja setja á oddinn nefnir hún meðal annars málefni barnafólks.

„Ég er jafnaðarmaður fram í fingurgóma. Ég er félagshyggjukona. Það er rosalega mikilvægt að þetta sé lesið saman. Ég er líka femínisti. Ég er þingmaður Reykvíkinga og ég legg áherslu á að daglegt líf fólks sé í samræmi við það sem við viljum kalla í jafnaðarsamfélag. Hérna er ég að tala um fjölskyldumálin og samgöngumál. Það er kannski það sem ég brenn einna helst fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert