Átta ár fyrir stórfellt heimilisofbeldi

Maðurinn hlaut átta ára dóm fyrir þrettán ákæruatriði.
Maðurinn hlaut átta ára dóm fyrir þrettán ákæruatriði. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hann hlaut átta ára dóm og var sakfellt fyrir öll þau ákæruefni sem honum voru gefin að sök, þau voru þrettán,“ segir Karl Ingi Vilbergsson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is um dóm Héraðsdóms Reykjaness í dag yfir manni sem ákærður var fyrir fjölda ofbeldisbrota gegn eiginkonu sinni.

Hlaut maðurinn dóm fyrir brot sem að sögn saksóknara náðu yfir fjögurra ára tímabil en meðal ákæruatriða voru stórfelld líkamsárás, stórfellt brot í nánu sambandi og nauðgun.

Ítrekaðar nauðganir

Eins og mbl.is greindi frá í júní sat maðurinn í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 25. febrúar til 15. júní, grunaður um háttsemi sem hann nú hefur verið fundinn sekur um. Talaði hann ítrekað niður til konunnar, hótaði henni lífláti og hótaði að setja bjórflösku og vatnsflösku inn í leggöng hennar og endaþarm.

Kallaði hann konuna enn fremur hóru og aumingja og sakaði hana um lauslæti og framhjáhald en fyrsta líkamlega ofbeldisbrotið átti sér stað í júlí 2019. Veittist hann þá að konunni með ofbeldi eftir að hún vakti hann í svefnherbergi þeirra.

Í september sama ár veittist hann að konunni í eldhúsi þeirra og sló hana ítrekað í andlitið auk annars ofbeldis. Tvær líkamsárásir gerði hann á hana í janúar 2020 og nauðgaði henni í maí 2020 þar sem hún lá í sófa á heimili þeirra. Í mars í fyrra réðst hann einnig á konuna og stóð árásin yfir í nokkrar klukkustundir.

Önnur nauðgun átti sér stað á nýársdag í ár auk tveggja stórfelldra líkamsárása og nauðgana í febrúar þar sem konan hlaut ýmsa áverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert