Héraðssaksóknari hefur rannsókn á meintu mútumáli

Landsbankahúsið á Selfossi.
Landsbankahúsið á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á meintum mútubrotum. Bæjarfulltrúinn fyrrverandi, Tómas Ellert Tómasson, upplýsti fjölmiðla á síðustu dögum um að hann teldi eiganda þróunarfélags hafa gert sér tilboð um stuðning í kringum síðustu kosningar gegn því að hann myndi vinna að því að fallið yrði frá kauptilboði Árborgar í Landsbankahúsið á Selfossi.

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að málið hafi komið inn á borð hjá embættinu og sé til meðferðar. Ekkert frekar sé hins vegar hægt að upplýsa um það á frumstigi. Heimildin greindi í dag frá því að Tómas hefði verið boðaður í skýrslutöku hjá embættinu.

Ólafur segir að samkvæmt lögreglulögum eigi embættið að sjá um rannsókn mála þar sem grunur er um mútur gegn opinberum aðilum. Spurður hvort kæra hafi borist í þessu tilfelli eða hvort embættið hafi tekið málið upp sjálft segir Ólafur að í mútumálum almennt sé brotaþoli ekki einn einstaklingur, heldur sé það frekar tengt almannahagsmunum. Því fylgist embættið með ef slík mál komi upp í umræðu eða fréttaumfjöllun og skoði þau ef þurfa þykir.

Embætti héraðssaksóknara.
Embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Hjörtur

Tómas Ellert Tómasson, sem er fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, sagði við Heimildina í síðustu viku að fjárfestirinn Leó Árnason, sem er eigandi Sigtúns þróunarfélags, hafi gert sér tilboð árið 2020. Í því fólst að Sigtún myndi greiða fyrir kosningabaráttu Miðflokksins gegn fyrrnefndri vinnu ef Tómas yrði kjörinn. Sagði Tómas við Heimildina að hann teldi ljóst að Leó hafi verið að reyna að kaupa sér stuðning kjörins fulltrúa, en hann tók jafnframt mynd af minnispunktum sem ritaðir höfðu verið þar sem fram komu upplýsingar um samkomulagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka