Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að landrisið sem nú hefur mælst á svæðinu við Litla-Hrút sé eitthvað sem hefði mátt búast við.
Morgunblaðið greindi frá því á laugardag að landris væri aftur hafið á Reykjanesskaga. Er þetta í fyrsta sinn sem landris af þessari stærðargráðu mælist svo snemma að loknu gosi á Reykjanesskaganum.
Ármann segir það nú löngu ljóst að Reykjanesskaginn sé kominn í gang og að hlutirnir gerist hraðar en áður. Spennuástand í jarðskorpu skagans hafi valdið því að ekki gat gosið.
„Svo þegar losnar um þetta spennuástand þá breytist það þannig að það á auðveldara með að gjósa,“ segir hann.
Ármann segir erfitt að álykta eitthvað um framvinduna á Reykjanesskaga. Vísindamenn þurfi að læra á svæðið og hvernig það hegðar sér hægt og rólega.
„Jörðin er bara þannig, hún er öll mjög sérstök og þetta kerfi verður að fá að vera mælt í rólegheitunum. Þetta er bara nýtt, við höfum aldrei gert þetta áður og erum bara að læra eins og gengur,“ segir hann.
„Þó við höfum lýsingar af þessum hrinum sem áttu sér stað hér á árum áður, hvenær gaus og allt það, þá erum við samt í þessum vandræðum. Við höfum ekki mælt þetta áður. Við getum sagt: Miðað við hvernig þetta var í Kröflu eða hér og þar þá kemur þetta sennilega til með að haga sér eitthvað svipað, en það er bara jafn góð ályktun og hver önnur. Við verðum því miður að fá núll-línuna.“
Þannig segir Ármann mjög erfitt að spá fyrir um það hvenær jörð fari að skjálfa á ný og hvenær kunni að gjósa að því búnu. Hann segir engin neðri eða efri mörk landriss sem horfa megi til svo að hægt sé að spá fyrir um framvinduna.
Rætt hefur verið um að það eldatímabil sem virðist vera hafið geti talið um fimm til tíu jarðeldaviðburði. Ármann segir það bara dregið af sögulegum heimildum.
„Það er þá bara sá hluti sem er núna í gangi og það getur svo breyst þegar næstu kerfi fara í gang. Það er bara mjög erfitt að segja til um þetta allt saman. Mjög erfitt.“