Félag atvinnurekenda (FA) hvetur félagsmenn sína til að sýna viðskiptum Eimskip og Samskip aukið aðhald.
Fram kemur í tilkynningu á vef samtakanna að samtökin hafi kvartað undan sífelldum hækkunum á flutningskostnaði, ógegnsæjum verðskrám skipafélaganna og álagningu ýmiss konar aukagjalda.
„Þá benti félagið á þær samkeppnishindranir sem felast í því að í Sundahöfn er afgreiðslubúnaður og löndunaraðstaða í eigu stóru skipafélaganna tveggja og önnur skipafélög þurfa því að semja við keppinauta sína, vilji þau komast að í stærstu inn- og útflutningshöfn landsins,“ segir í tilkynningunni.
„Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa sýnir fram á að með ólögmætu samráði héldu stóru skipafélögin uppi verði á flutningum, sem hafði að sjálfsögðu áhrif á verð margs konar innfluttra vara,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.
„Ófullnægjandi samkeppni á flutningamarkaði er áfram vandamál og þess vegna hefur sjaldan verið mikilvægara en nú á verðbólgutímum að grípa til ráðstafana til að efla samkeppnina og lækka verð, fyrirtækjum og neytendum til hagsbóta,“ er haft eftir Ólafi á vef samtakanna.