Kanna loftgæði í skólum landsins

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra vill kortleggja stöðuna.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra vill kortleggja stöðuna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að setja af stað átaksverkefni um kortlagningu innilofts í skólum og leikskólum. Markmiðið er að fá yfirsýn yfir stöðuna en engin heildstæð opinber gögn liggja fyrir um málefnið og skortur er á viðmiðum eða mörkum um ástand innilofts í reglugerðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu á vef stjórnarráðsins.  

Samræma kröfur 

„Eftirlit með hollustuháttum, og þar með loftgæðum í skólum á Íslandi, er á hendi heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Umhverfisstofnun vinnur að samræmingu heilbrigðiseftirlits í landinu en í því felst m.a. að samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi sem heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi fyrir,“ segir í tilkynningu.

Allir sammála um loftgæði barna 

Í tilkynningu er haft eftir Guðlaugi Þór „að eftirlitsaðilar geti gert kröfur til gæða innilofts, og aðbúnaðar því tengdu, er nauðsynlegt að hafa viðmið í íslensku regluverki sem segja til um hvert ástand innilofts skal vera. Miðað við fjölda þeirra tilfella myglu í skólum og leikskólum sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu er ljóst að bregðast þarf við en það hljóta allir að vera sammála um að við viljum að börnin okkar búi við góð loftgæði í skólum og leikskólum.“

„Verkefnið verður unnið í samstarfi við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og verður í framhaldi vinnunnar lagt mat á heildarendurskoðun á regluverki er tengist loftgæðum innandyra,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert