„Skrifborðið hallar um þrjátíu gráður“

Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður, skoðar réttarstöðu fyrirtækja gagnvart skipafélögunum.
Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður, skoðar réttarstöðu fyrirtækja gagnvart skipafélögunum.

Þau fyrirtæki sem nefnd eru á nafn í skýrslu Samkeppniseftirlitsins þar sem samkeppnisbrot Samskip og Eimskip voru tíunduð skoða réttarstöðu sína.

Páll Rúnar Kristjánsson lögmaður fer með málið fyrir hönd fjölda fyrirtækja. Hann segir að líkur séu á því að að málsóknir muni hefjast fyrir áramót þar sem fyrirtæki munu sækjast eftir skaðabótum. 

Greina stöðuna 

Gögn málsins eru mörg þúsund blaðsíður í 15 bindum og tugir fyrirtækja eru nefndir á nafn í í úttekt SKE. „Skrifborðið hallar um 30 gráður því öll gögnin eru sömum megin á skrifborðinu,“ segir Páll Rúnar í gamansömum tón. 

„Núna erum við í þeirri aðstöðu að greina stöðuna, greina brotin gegn hverjum og einum. Svo kynnum við þær niðurstöður fyrir umbjóðendur okkar. Þeir sjá svo hvernig málið horfir við sínu fyrirtæki. Síðan fara viðkomandi fyrirtæki, í samstarfi við okkur, í að ákveða framhaldið,“ segir Páll Rúnar.

Til dæmis um félög sem nefnd eru á nafn í skýrslunni má nefna Ölgerðina, Ikea, Garra, Aðföng, Promens, Norðlenska, Vífilfell, Ögurvík, Ísam/Innes, Askja, Rúmfatalagerinn, Norðurál og Elkem, Rúmfatalagerinn auk fleiri félaga.

Málsóknir fyrir áramót 

Hvert og eitt fyrirtæki mun sækja bætur fyrir sitt tjón ef ástæða þykir til. Páll Rúnar segist enn eftir að fá aðgang að öllum gögnum sem snúa að fyrirtækjunum en taka verði mið af því að stutt sé síðan stjórnvaldssektin var ákveðin.

„Ég tel að þau fyrirtækið sem hyggjast sækja rétt sinn fyrir dómi muni gera það fyrir áramót,“ segir Páll Rúnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert