Framkvæmdum flýtt fyrir austan

Snjóflóð féllu í Neskaupstað í mars á þessu ári og …
Snjóflóð féllu í Neskaupstað í mars á þessu ári og ollu miklu tjóni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdum við ofanflóðavarnir í Neskaupstað verður flýtt um eitt ár og vinnu sem nú er í gangi við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði verður hraðað. 

Tillaga um þetta hefur verið samþykkt í fjármálafrumvarpi 2024 en alls á að verja 600 milljónum króna til að flýta framkvæmdunum í Neskaupstað og 150 milljónum í að hraða framkvæmdunum á Seyðisfirði. 

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir einnig að á vinnufundi ríkisstjórnarinnar 31. ágúst hafi verið samþykkt að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að láta vinna frumvarp um að útvíkka hlutverk Ofanflóðasjóðs þannig að hann kosti einnig varnir gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum.

Aðkallandi að flýta framkvæmdunum

Framkvæmdir við uppbyggingar varnargarða og keilna vegna Nesgils og Bakkagils í Neskaupstað, eru nú þegar á áætlun Ofanflóðasjóðs, en þeim framkvæmdum verður flýtt með flutningi fjárheimilda innan tímabilsins 2024-2030. Í Neskaupstað eru fyrir varnargarðar og keilur við Drangagil, Tröllagil, Urðarbotna og og þegar vörnunum við Nes- og Bakkagil er lokið verða komnar varnargarðar og keilur sem verja alla íbúabyggð í Neskaupstað.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, segir í tilkynningunni að í ljósi snjóflóðanna sem féllu í Neskaupstað í vetur og ollu bæði tjóni á fólki og eignum hafi verið aðkallandi að flýta framkvæmdum. Framkvæmdirnar voru á áætlun Ofanflóðasjóðs árið 2025, en geta nú hafist árið 2024.

Samþykktu einnig viðbótarstyrk

Framkvæmdir við varnarmannvirki vegna Bjólfs á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var. Hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið því heimilað 150 milljón króna aukningu til framkvæmdanna á þessu ári, en ljúka þarf framkvæmdum við Bjólf áður en hægt verður að hefjast handa við framkvæmdir í Botnum, þar sem miklar aurskriður féllu í lok árs 2020.

Einnig var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar að veita viðbótarstyrk vegna flutnings húsanna Angró og Gömlu símstöðvarinnar á Seyðisfirði af hættusvæðum, en húsin eru talin hafa menningarsögulegt gildi. Verður verkefnið styrkt um alls 200 milljónir króna á árunum 2024 og 2025 og bætist fjárhæðin við þær 190 milljónir sem þegar hafa verið veittar til verkefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert