MA-ingar mótfallnir sameiningunni

Menntaskólinn á Akureyri hefur lengi verið þekktur fyrir hefðir sínar.
Menntaskólinn á Akureyri hefur lengi verið þekktur fyrir hefðir sínar. mbl/Skapti Hallgrímsson

Stjórn skólafélags Hugins, í Menntaskólanum á Akureyri (MA), hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að stjórnin sé með öllu mótfallin sameiningu MA og Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA). 

Tilkynnt var um það í dag að MA og VMA yrðu sameinaðir í einn skóla. Ákvörðunin var tek­in með hliðsjón af skýrslu stýri­hóps mennta-og barna­málaráðherra um efl­ingu fram­halds­skóla, en stýri­hóp­ur­inn hef­ur nú lagt fram til­lögu við mennta-og barna­málaráðherra um sam­ein­ingu skól­anna tveggja. 

Vegið að öllum hefðum skólanna

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta-og barna­málaráðherra, tilkynnti um sameininguna ásamt skólameisturum skólanna á fundi með nemendum og kennurum í dag. 

Í tilkynningu frá skólafélaginu segir að í skólakerfi af þessari stærðargráðu muni nemendur aldrei upplifa sömu nánd við kennara, stjórnendur, stoðteymi eða samnemendur. 

„Nemendur eiga ekki skilið að vera lítill hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Þá segir að með sameiningunni verði vegið að öllum hefðum MA sem hefur lengi verið þekktur sem skóli hefðanna. Félaginu þykir ljóst að með sameiningunni muni allar hefðir eiga undir högg að sækja. 

Brostin loforð

Skólafélagið varpar því fram spurningu til barna- og menntamálaráðuneytisins um það hvernig það geti með hreinni samvisku fleygt út um gluggann öllu því sem gerir skólann einstakan. 

„Er hagræðing í menntakerfinu meira virði í augum ráðuneytisins en menning og saga skóla um allt land?“ spyrja þau ráðuneytið. 

Þá gagnrýnir skólafélagið jafnframt að í vor, þegar fréttir bárust af sameiningunni, hafi nemendum verið lofað að þeir fengju að koma sínu á framfæri áður en ákvörðunin yrði tekin. Þau segja aðgerðir dagsins því þvert á þau loforð sem mennta- og barnamálaráðherra gaf út. 

Að lokum segjast þau ekki ætla að standa aðgerðarlaus hjá á meðan fólk í valdastöðu fer með framtíð þeirra eins og þeim sýnist enda 98% nemenda mótfallnir sameiningunni miðað við könnun sem skólafélagið gerði. 

„Við erum framtíðin og við segjum nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert