„Menn eru að vakna upp við vondan draum núna“

Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir mikinn ágreining milli meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn vegna kostnaðaráætlunar samgöngusáttmálans. Um mikilvægi sáttmálans séu þó allir sammála.

Sáttmálinn var á meðal þess sem rætt var um á fundi borgarstjórnar í dag. Umræðan var tekin á fundi borgarstjórnar í dag að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. 

Skiptir engu hvað þær kosta 

Hildur dró niðurstöður fundarins saman fyrir blaðamann og sagði að sér fyndist sem meiri- og minnihluti væru fremur ósammála um mikilvægi þess að endurskoða áætlanir og tryggja til að tryggja að þær væru raunhæfar og ábyrgar. 

Hún sagði fulltrúa meirihlutans hafa stigið fram og sagt að þetta væru svo stórkostlegar samgönguframkvæmdir sem samið hefði verið um og að engu máli skipti hvað þær myndu kosta. 

Þar segir hún pólitískan ágreining milli hægrimanna annars vegar og vinstri meirihlutans hins vegar hafa birst. 

Frá fundi borgarstjórnar í dag.
Frá fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Froðukenndar og gloppóttar áætlanir

„Við auðvitað berum meiri virðingu fyrir skattfé en svo að hlutirnir megi kosta hvað sem er,“ segir Hildur sem er þó þeirrar skoðunar að framkvæmdirnar séu mjög mikilvægar og að eftir þeim hafi verið beðið lengi. Hildur segir þó að þær komist ekki til framkvæmda ef ekki er unnið eftir áreiðanlegum áætlunum sem standast, bæði hvað varðar tíma og kostnað. 

„Menn eru að vakna upp við vondan draum núna, að upphaflega áætlunin var svolítið froðukennd og gloppótt og stóðst enga skoðun. Þess vegna hefur lítið gerst af því sem samið var um í þessum sáttmála,“ segir Hildur en bætir við að flestir séu þó sammála um nauðsyn framkvæmdanna og vilja um að þær raungerist. Þrátt fyrir það séu menn með mismunandi skoðanir á því hvort einstaka verkefni kosti of mikið. 

Vill að Sundabrautar verði getið í sáttmálanum

Þá segir Hildur sjálfstæðismenn jafnframt hafa velt því upp hvort mistök hafi átt sér stað þegar sáttmálinn var gerður í upphafi, en Hildur skilur ekki hvernig þessi stóri hópur gat sest að samningaborðinu og gert samkomulag um framtíðar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til margra ára án þess að geta Sundabrautar. 

„Það er svona samgönguframkvæmd sem að ég held að flestir aðhyllist. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að hún er mjög arðbær og mjög mikilvæg tenging fyrir mörg hverfi, þannig að við hefðum vilja sjá hennar getið í endurskoðun sáttmálans,“ segir Hildur. 

Hún segir þó að það verði að koma í ljós hvort svo verði enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki rödd við borðið í þessari endurskoðunarvinnu.

„Þannig að við bíðum bara og sjáum,“ segir Hildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert