Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri verða sameinaðir í einn skóla. Þetta tilkynni Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, á fundi ásamt skólameisturum skólanna, nemendum og kennurum í dag.
Ákvörðunin var tekin með hliðsjón af skýrslu stýrihóps mennta-og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla, en stýrihópurinn hefur nú lagt fram tillögu við mennta-og barnamálaráðherra um sameiningu skólanna tveggja.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að frumgreining stýrihópsins um eflingu framhaldsskóla hafi skilað jákvæðri niðurstöðu og hefur hópurinn því lagt fram tillögu um sameiningu skólanna tveggja.
„Niðurstaða stýrihópsins er að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorunum sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu.
Hafa þarf í huga að tillagan snýr að því að sameina ólíka skóla með ólíka menningu og því skiptir máli að starfsfólk skólanna skoði nánar hvernig gera megi það svo vel fari,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningunni.
Í tilkynningunni segir að vinna við greiningu tækifæra, kosta og galla sameiningar skólanna komi til með að hefjast strax. Vinnunni verður stýrt af skólameisturum MA og VMA og verður hún unnin í samstarfi við starfsfólk beggja skóla, nemendur og foreldra.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, segir sameiningu skólanna tveggja geta veitt fjölbreyttum nemendahópi tækifæri til menntunar.
„Við sameiningu skólanna verður til öflugt skólasamfélag þar sem fjölbreytt námsframboð mun veita fjölbreyttum nemendahópi tækifæri til menntunar. Hlutverk okkar er að byggja upp ungt fólk, undirbúa þau sem best undir frekara nám og til ákveðinna starfa en ekki síður til að lifa og starfa í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir Sigríður Huld.
Þá segir Karl Frímannsson, skólameistari MA, að sameining bjóði upp á ýmiss konar tækifæri, en mikilvægt sé að tekið sé tillit til menningar stofnananna.
„Ef rétt er að málum staðið hefur sameinaður skóli burði til að bæta skólastarf til lengri tíma litið, bjóða upp á fjölbreyttara nám og sveigjanleika, auka þjónustu og stuðning við nemendur, gefa nemendum fleiri tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám og auka tækifæri til hagkvæmari reksturs.
Með fleiri nemendum er hægt að tryggja nægilega þátttöku í sérhæfðari áföngum og auka þannig val fyrir nemendur. Virðing fyrir mannlega þættinum og menningu þeirra stofnana sem eiga í hlut skiptir höfuðmáli ef breytingarnar eiga að leiða til framfara og ná tilgangi sínum,“ segir Karl.