Hermann Nökkvi Gunnarsson
Yfir 200 manns mættu á mótmæli sem boðuð voru af nemendum við Menntaskólann á Akureyri á ráðhústorgi Akureyrar vegna ákvörðunar Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, um að sameina Menntaskólann á Akureyri, MA, við Verkmenntaskólann á Akureyri, VMA.
Krista Sól Guðjónsdóttir, inspectrix scholae í Menntaskólanum á Akureyri, ræddi við mbl.is um mótmælin.
„Þetta var betra en okkar bestu vonir. Samheldnin sem var á svæðinu var ótrúleg,“ segir hún og bætir við:
„Þetta voru skýr skilaboð frá nemendum til mennta-og barnamálaráðuneytisins og Ásmundar,“ segir hún laust eftir að mótmælin kláruðust.
Krista segir nú að næsta skref sé að setja á laggirnar undirskriftalista gegn sameiningu skólanna og vonast hún til þess að hann fari í loftið ekki seinna en í kvöld.
Vakti hún athygli á því að á Facebook sé kominn hópur gegn sameiningu MA og VMA með um það bil 900 meðlimi. Heitir sá hópur einfaldlega: Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA.
Hver eru skilaboð nemenda til stjórnvalda?
„Að hlusta á vilja nemenda,“ segir hún ákveðin að lokum.