Sigurður Líndal fv. lagaprófessor lést 2. september sl., 92 ára að aldri.
Sigurður fæddist 2. júlí árið 1931, sonur hjónanna Þórhildar Pálsdóttur Briem og Theodórs B. Líndal. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1951 og BA-prófi í latínu og mannkynssögu frá Háskóla Íslands 1957, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1959 og MA-prófi í sagnfræði frá sama skóla 1968.
Sigurður lagði stund á nám í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla árið 1960, við Háskólann í Bonn í Þýskalandi 1961-1962 og University College í Oxford árin 1998 og 2001. Hann lauk einkaflugmannsprófi árið 1967.
Sigurður átti fjölbreyttan starfsferil að baki. Hann var dómarafulltrúi við embætti Borgardómarans í Reykjavík árin 1959 til 1960 og 1963 til 1964 og hæstaréttarritari við Hæstarétt Íslands árin 1964 til 1972. Hann var lektor við lagadeild Háskóla Íslands árið 1967 og prófessor við deildina árin 1972 til 2001. Sigurður var gistiprófessor við University College í London haustið 1982, sat í skattsektanefnd 1965 til 1979, var dómari í Félagsdómi 1974 til 1980 og forstöðumaður Lagastofnunar HÍ 1976 til 2001. Hann varð heiðursdoktor frá lagadeild HÍ frá 2008.
Sigurður var forseti Hins íslenzka bókmenntafélags 1967 til 2015 og sat í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar árin 1996 til 2006. Hann var ráðunautur landstjórnar Færeyja í sjálfstæðismálum 1997 til 2000. Frá árinu 2002 til 2005 var hann formaður rannsóknarnefndar til að rannsaka flugslys í Skerjafirði. Árið 2007 var hann ráðinn prófessor við Háskólann á Bifröst og starfaði þar um skeið. Hann var varamaður í Flugslysanefnd árin 2009 til 2013.
Auk fjölbreytts starfsferils á vettvangi lögfræði, sagnfræði, stjórnmálafræði og bókmennta sat Sigurður í ýmsum nefndum og stjórnum, þar á meðal dómnefndum. Sigurður var ritstjóri Sögu Íslands árin 1972 til 2016 og átti sæti í ritstjórn Nordisk administrativt tidsskrift 1984 til 1999. Hann var ásamt Kristjáni Karlssyni ritstjóri Skírnis 1984 til 1986.
Eftir Sigurð liggur fjöldi ritverka um lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði og ritstýrði hann fjölda verka á þessum fræðasviðum.
Á sjötugsafmæli hans árið 2001 var gefin út bókin Líndæla sem er safn greina sem ritaðar voru honum til heiðurs.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er María Jóhannsdóttir, fv. skrifstofustjóri heimspekideildar HÍ. Hann lætur eftir sig tvær dætur, Kristínu og Þórhildi.