MA-ingar hafa efnt til mótmæla á ráðhústorgi Akureyrar vegna ákvörðunar Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, um að sameina MA við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Mikill fjöldi lét sjá sig.
„Við teljum að það sem einkennir okkar skóla muni deyja út við sameininguna,“ segir Krista Sól Guðjónsdóttir, inspectrix scholae í Menntaskólanum á Akureyri við mbl.is. Hún hringdi á sal klukkan 13.30 í dag og leiddi síðan fylkingu MA-inga er þeir marseruðu að Ráðhústorgi 1.
Nemendur MA eru margir óánægðir með áform stjórnvalda. Krista, inspectrix scholae sem fer með formennsku í skólafélaginu Hugin, telur að skólinn muni glata sínum hefðum, siðum, menningu og „félagslífi sem er algjörlega einstakt“, ef skólarnir verða sameinaðir.
Segir hún einnig að meginþorri nemenda í MA séu mótvígir sameiningunni, samkvæmt óformlegri könnun meðal nemenda. „300 nemendur hafa tekið könnun af 570 nemendum MA og þar eru 97% andfallin sameiningunni,“ segir Krista.
Hún segir að ákvörðunin hafi komið bæði stjórninni og öðrum nemendum skólans í opna skjöldu.
„Þetta kom okkur algjörlega að óvörum. Það átti að ræða við okkur áður en ákvörðunin yrði tekin. Því var okkur lofað af ráðuneytinu.“
Skiptar skoðanir eru hjá kennurum beggja skóla en svo virðist sem að kennarar í VMA séu hlynntari sameiningunni en kennarar í MA, ef marka má formenn kennarafélaga skólanna tveggja.
Formaður kennarafélags VMA sagði við mbl.is í dag að hljóðið í kennurum VMA væri mjög gott hvað varðar sameiningu skólanna.
Jafnramt sagði formaður kennarafélags MA að ökvörðunin væri fyrir marga „köld vatnsgusa í andlitið“ og að sparnaður virtis alltaf undirliggjandi í skýrslunni starfshóps, sem lagði fram tillögu um sameininguna.