Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, geldur varhug við áform Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, um að sameina Menntaskólann á Akureyri (MA) við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA).
„Í fyrsta lagi kemur ágætlega fram í niðurstöðu fundarins þegar þetta er kynnt að það sé stefnt að þessum sameiningum og síðan kemur næsta setning á eftir að „jafnframt muni fara fram vinna í framhaldinu til þess að meta kosti og galla“. Þá spyr maður sig vort að mögulega sé verið að byrja á röngum enda,“ segir Logi í samtali við mbl.is.
Hann segir að börn sín hafi gengið í báða skóla og þeir reynst börnum sínum vel. Hann segir þó skólana mjög ólíka. Annars vegar sé um að ræða einn skóla með bekkjakerfi á meðan hinn sé sveigjanlegur verkmenntaskóli með nemendur á mismunandi aldri. Báðir skólar beri mikla kosti en þó mismunandi menningu.
„Ég óttast að við það að steypa þeim saman verði til mjög stór eining, og ég sé ekki í fljótu að það sé augljóst að það verði þessi sparnaður sem talað er um. Fyrir utan það þá hélt ég að farsældarfrumvarp ráðherra liti að því að auka gæði og vellíðan barna og unglinga.“
Logi segir þetta tímabil í lífi unglinganna mikilvægt tímabil í lífi hvers eintaklings.
„Ég er hræddur um að krakkar fyrir norðan á Akureyri missi val um hvers konar umhverfi þau vilji dvelja í og stunda nám í. Bæði námið en líka félagslífið,“ segir hann og bætir við að lítið samráð hafi verið við kennara og nemendur. Áformin hafi ekki endilega verið nógu vel ígrunduð.
„Mér finnst ráðherrann göslast áfram svolítið í þessu máli.“
Logi telur undarlegt að þessir tveir skólar hafi orðið fyrir valinu af hálfu ráðherra til að sameina. Nær hefði verið að horfa til höfuðborgarsvæðisins fyrir svona tilraun.
„Það er augljóst að ef tilraunin misheppnast þá er val nemendanna hér á þessu svæði svo miklu minna,“ segir hann en tekur þó fram að hann sé ekki að tala fyrir sameiningu neinna skóla á höfuðborgarsvæðinu.
Að lokum segir hann athugavert að ráðherra geti tekið svona stórar ákvarðanir án samráðs við Alþingi og vonast eftir frekari umræðu um þetta mál þar.