Segir áform um sameiningu óásættanleg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur áform ráðherra óásættanleg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur áform ráðherra óásættanleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það að setja allt þetta saman í eina stofnun, í mjög óljósum tilgangi, tel ég óásættanlegt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um áform Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, barna- og mennta­málaráðherra, um að sam­eina Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri (MA) við Verk­mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri (VMA).

„Ég á erfitt með að átta mig á því hverju þetta á að skila sem ekki hefði verið hægt að ná fram með auknu samstarfi skólanna. Það hefur reynst sérlega vel að hafa þessa tvo öflugu skóla sem sinna ólíkum sviðum á Akureyri.

Það er ákveðin samkeppni þeirra á milli sem er bara holl, dýnamísk og æskileg. Skólarnir bjóða upp á ólíka valkosti fyrir nemendur og kennara,“ segir Sigmundur sem telur að mörgum spurningum sé enn ósvarað.

Óljóst hvað þetta þýði fyrir skóla á landsbyggðinni

„Nú er spurning hvað menn sjá fyrir sér um framhaldið? Í fyrsta lagi varðandi þessa áformuðu sameiningu, á MA að yfirtaka VMA? Eiga þessir skólar að renna saman í þá hvaða skóla? Eða á kannski að leggja þá báða niður og stofna nýjan?“

Einnig segir Sigmundur óljóst hvað þessi ákvörðun þýði fyrir aðra skóla á landsbyggðinni. 

„Ef þessir tveir öflugu skólar eru ekki nógu sterkir að mati ráðherra til að starfa áfram sjálfstætt, hvaða skilaboð eru það til framhaldsskóla vítt og breytt um landið sem flestir eru nú minni en þessir skólar?“

Mikilvægt að varðveita menningu skólana

Spurður um það þá ákvörðun að ákveða fyrst að sameina skólana og skoða svo kostina segir hann augljóst að forgangsröðunin sé ekki alveg á hreinu.

„Þarna hefur eitthvað orðið til í kerfinu. Hvort sem það er að reyna ná niðurstöðu sem ráðherra vildi ná fram, eða hvernig sem það varð til. En ég tel það alveg stórundarlegt að tilkynna um þessi áform og svo farið í það að skoða kostina og gallanna. Hefði ekki verið eðlilegra að klára það fyrst?“

Að lokum segir hann vel þess virði að varðveita ólíka menningu þessara tveggja skóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert