Skoðanir skiptar hjá kennurum MA og VMA

Formaður kennarafélags VMA segir hljóðið í kennurum vera mjög gott …
Formaður kennarafélags VMA segir hljóðið í kennurum vera mjög gott hvað varðar sameiningu MA og VMA. Annað heyrst þó úr kennurum MA. Samsett mynd

Skoðanir kennara á sameiningu Menntaskólans á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) eru skiptar. Gott hljóð í kennurum VMA en jafnframt er sameiningin „köld vatnsgusa í andlitið“ á kennurum MA. Þetta segja formenn kennarafélaga skólanna.

Til­kynnt var um það í gær að MA og VMA yrðu sameinaðir í einn skóla. Ákvörðunin var tek­in með hliðsjón af skýrslu stýri­hóps mennta- og barna­málaráðherra um eflingu fram­halds­skóla, en stýri­hóp­ur­inn lagði fram til­löguna um sameiningu. 

Í tilefni þess sendi stjórn skóla­fé­lagsins Hug­ins frá sér yfirlýsingu þar sem seg­ir að stjórn­in sé með öllu mót­fall­in sam­ein­ingu, sem og um 98% nemenda MA.

Kennurum VMA líst almennt vel á sameininguna

Óskar Ingi Sigurðsson, formaður kennarafélags VMA, segir hljóðið í kennurum VMA vera mjög gott hvað varðar sameiningu skólana tveggja. Þó geti hann ekki talað fyrir hönd allra kennara skólans.

„Við viljum sjá þetta samtal fara lengra,“ segir Óskar og bætir við: „Það er fullt af tækifærum í þessu.“

Aðspurður segir hann þau tækifæri sem hann vitnar þar í vera fjölbreyttara námsval fyrir nemendur og betri nýtingu á húsnæði skólanna.

Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Verkmenntaskólinn á Akureyri. www.akureyri.is

„Köld vatnsgusa í andlitið“

Annað hljóð heyrist hins vegar frá Önnu Sigríði Davíðsdóttur, formanni kennarafélags MA, sem segir að skoðanir kennara í MA á sameiningunni séu afar skiptar.

„Þetta var fyrir marga köld vatnsgusa í andlitið,“ segir hún og útskýrir að að hingað til hafi almennt verið meira talað um aukna samvinnu skólanna frekar en sameiningu. Kennarafélagið á samt sem áður eftir að ræða ákvörðunina.

Kennarar hafi þá verið mjög móttækilegir gagnvart aukinni samvinnu við VMA, þar sem mörgum hefur þótt samvinnan milli skólanna of lítil. „En varðandi sameiningu, þar eru miklu meiri efasemdir um að það sé það sem við viljum stefna að en auðvitað eru skoðanir skiptar,“ segir Anna.

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd/mbl.is

Mikill munur á skólunum

Anna bendir á að það sé mikill munur á skólunum tveimur. Það er bekkjakerfi í öðrum skólanum og áfangakerfi í hinum og menning og saga skólanna tveggja er einnig ólík. „Þetta verður bara mjög flókið og það verður eftirsjá af þessum skólum ef þeir verða sameinaðir.“

Bætir hún aftur á móti við að það séu einnig ýmis tækifæri í sameiningunni „en það eru ansi margar hindranir og ansi margt sem þarf að takast á við ef að þessu verður.“

Lyktar af peningum

„Tímaramminn er ótrúlega þröngur. Núna eigum við á tveimur mánuðum að skipuleggja sameinaða skóla, sem er fáránlega stuttur tími,“ segir hún útskýrir að hvor skóli fyrir sig eigi að skila skýrslu með tillögum er snerta sameininguna eftir tæpa tvo mánuði.

„Margir eru fullir efasemda og tortryggni. Undirliggjandi virðist alltaf vera sparnaður. Maður sér það í skýrslunni,“ segir Anna. „Það eru peningar sem eru alltaf þarna undirliggjandi. Það er talað um hvað sparist af því að fækka námsráðgjöfum og sálfræðingum og starfsfólki og vera með stærri námshópa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert