„Við viljum ekki hafa þetta svona“

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi einstaklinga þarf að bíða eftir því að komast í eftirmeðferð í framhaldi af útskrift af Vogi yfir sumartímann. Ekki er hægt að halda starfsemi meðferðarstöðvarinnar Vík og göngudeildum SÁÁ gangandi óslitið yfir árið vegna vanfjármögnunar og myndast því biðlisti. Sumir sjúklingar ná að halda út, aðrir ekki.

Yfirlæknir á Vogi segir SÁÁ hafa greitt um 300 milljónir á síðasta ári til að fjármagna meðferðarúrræðin þar sem fjárframlög frá ríkinu dugi ekki til.

„Okkur finnst mjög slæmt að hafa ekki tök á því að hafa meðferðina opna allt árið. Við gátum gert það í fyrra, og við höfum óskað eftir því í gegnum árin. En við gátum það ekki núna, að hafa opið núna. Hvorki á göngudeildum né Vík, meðferðinni sem tekur við af Vogi,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.

Slæmt þegar hökt kemur á meðferð

Meðferðarúrræðið á Vogi er opið allan ársins hring en loka þarf göngudeildum SÁÁ og meðferðarstöðinni Vík, nánast ár hvert, yfir sumartímann. Um 15-20 einstaklingar voru sendir heim yfir sumarið beint eftir útskrift af Vogi. 

Valgerður, segir hluta þeirra sem sendir séu heim halda áfram í eftirmeðferð þegar pláss leyfir, en aðra þurfa að sækja aftur um í meðferð á Vogi, kjósi þeir að gera slíkt.

Valgerður segir mjög slæmt þegar hökt kemur á meðferð. Það sé eindreginn vilji að einstaklingar fái að halda áfram í meðferð í beinu framhaldi af útskrift af Vogi, eins og það sé oftast, nema í þeim tilfellum þar sem einstaklingar kjósi sjálfir að fara heim í 2-3 daga á milli.

Viljum ekki hafa þetta svona

„Við viljum ekki hafa þetta svona,“ segir Valgerður. Lengri tími í meðferð og eftirfylgd skipti miklu máli þegar kemur að því að ná tökum á sjúkdómnum, bæta lífsgæði og ná árangri.

„Eitt af því mikilvægasta sem við höfum upp á að bjóða er að það er ein meðferð sem tekur við af annarri og það höktir ekki.“

Enn er verið að vinna upp biðlistann sem myndaðist yfir sumartímann en að sögn Valgerðar sér fyrir endann á honum og verður vandamálið vonandi leyst í næstu viku.

„Höfum ekkert séð af því enn þá“

„Við fáum bara ekki fjármagn til þess að gera það sem við gerum. Það er stóra málið. Þetta er ekki fjármagnað það sem við gerum, þessi heilbrigðisþjónusta við þessum alvarlega sjúkdómi. Hann er svo alvarlegur að hann ætti að fá miklu, miklu meira. Við erum ekki að sinna öllum sem þurfa og eru að biðja um aðstoð. 

Þegar það er verið að tala um meðferðir og aðgerðir þeim tengdar, þá er alltaf efst á listanum aðgengi að meðferð. Að það sé til staðar meðferð og það sé hægt að veita hana.“

Hún segir SÁÁ greiða alltof háa fjárhæð í þessa heilbrigðisþjónustu, sem ríkið ætti að fjármagna. 

„Við finnum fyrir góðum vilja og mér heyrist allir vilja hafa okkur og þjónustuna. Öllum finnst ótækt að þetta sé ekki greitt en það vantar að klára þetta. Við bindum vonir við nýjan samning sem á að gera við okkur. Vonandi verður gengið frá því á þessu ári. Við höfum alveg ástæðu til þess að trúa að það gerist loksins, og að lyfjameðferðin verði greidd. Það er búið að samþykkja peninga inn í þann vanda, með ópíóðana, en við höfum ekkert séð af því enn þá. Við vitum að það er búið að samþykkja þetta en þetta tekur allt svo langan tíma og á meðan erum við bara að vinna, leysa verkefnin á fullu, eins vel og við getum, en ekki eins og við vildum helst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert