„Menntaskólinn á Akureyri skipar sérstakan sess í menntasögu þjóðarinnar sem okkur ber að standa vörð um,“ segir Óli Björn Kárason alþingismaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is, þegar hann er inntur eftir afstöðu sinni til áforma mennta- og barnamálaráðherra um að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Óli Björn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981.
„MA, Verkmenntaskólinn og Háskólinn á Akureyri hafa sameiginlega myndað traustan grunn undir menntun – ekki aðeins á Akureyri heldur Norðurlandi öllu,“ segir Óli Björn.
„Þessir þrír skólar hafa verið styrkur mannlífs, menntunar og atvinnulífsins. Hugmyndin um sameiningu Menntaskólans og Verkmenntaskólans byggir á miklum misskilningi á eðli menntunar. Sameining mun ekki styrkja stöðu menntunar úti á landi, heldur þvert á móti. Fjölbreytileikinn verður minni og möguleikar nemenda til að velja sér skóla og við hæfi minnkar.“