Engin sameining ef það eflir ekki námið

Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingmaður og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingmaður og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. mbl.is/Ljósmynd

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segir ólíklegt að ráðist verði í áformaða sameiningu MA og VMA ef niðurstaða vinnuhóps um sameiningu sýni ekki fram á bætt gæði náms fyrir nemendur.

„Ég er mjög hörð á því að niðurstöðurnar verði að sýna fram á það að sameiningin efli námið og svæðið. Ég geri ráð fyrir að sjá það í tillögunum, því ef það kemur ekki fram þá tel ég ólíklegt að ráðist verði í þetta,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að leyfa vinnunni að klárast

Vinna sem á að greina tækifæri, kosti og galla þess að sameina skólana mun nú hefjast fljótlega í samstarfi við starfsfólk beggja skóla, nemendur og foreldra. Skólameistarar VMA og MA stýra þeirri vinnu. Ingibjörg segir mikilvægt að sjá hvað sú vinna leiði í ljós.

„Mér finnst mikilvægt að fá niðurstöðuna sem kemur frá vinnunni  sem verður ráðist í á næstu vikum og mánuðum með hluteigandi aðilum. Þá sjáum við hvort að þetta leiði til öflugra náms fyrir svæðið eður ei.

Breytingarnar þurfa að sannfæra okkur um að við þetta skapist fjölbreyttara og framúrskarandi nám með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.“

Markmiðið að bæta skilyrði nemenda

Spurð út í mótmæli nemenda kveðst hún skilja vel tilfinningar fólks enda sé mikil saga að baki beggja skóla. Einmitt af þeirri ástæðu hafi Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, falið skólastjórnendum að leiða vinnuna.

Telur hún mikilvægt að samráð verði við nemendur nú í næstu skrefum en segir ljóst að aðeins sé verið að skoða þennan valmöguleika með hagsmuni nemenda fyrir brjósti.

„Eins og þetta horfir við mér þá hlítur markmiðið með vinnunni að skapa þeim betri skilyrði til náms en þau búa við nú þegar.“

Nauðsynlegt að ráðast í uppbygginu

Ingibjörg segir þó mikilvægt að hafa í huga að þessi áform séu aðeins skoðuð með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Skólastjórnendum lítist vel á vinnuna og að mikill skortur sé á aðstöðu fyrir iðn- og verknám á Íslandi.

Um síðasta haust hafi um 450 umsækjendum verið hafnað um pláss í iðn- og verknámi vegna skorts á aðstöðu fyrir námið.

„Á sama tíma erum við að horfa á að það eru 1.000 laus bóknámspláss á höfuðborgarsvæðinu og 1.900 á landinu öllu. Þannig það er augljóst að við þurfum að ráðast í uppbyggingu á húsnæði fyrir iðn- og starfsnám, en einnig að skoða leiðir til að reka hagkvæmari bóknámsbrautir,“ segir hún að lokum.

Mikil tækifæri til samráðs

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður hjá Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi, kveðst opin fyrir áformum um sameiningu en segir þó vinnu vera fram undan og við lok hennar komi fleira í ljós um fýsileika sameiningar.

Spurð út í mótmæli nemenda og gagnrýni þeirra um að lítið samráð hafi átt sér stað segir hún að meira samráð sé fram undan.

„Ég veit ekkert um samráðið sem er búið að vera, ég veit að það er búið að vera eitthvað samráð, en ég veit að það er mikið samráð fram undan. Það eru mikil tækifæri til samráðs í vinnunni sem er fram undan,“ segir Líneik í samtali við mbl.is.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert