„Mér hugnast þessar breytingar sem hér eru lagðar fram illa,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, í samtali við mbl.is um áform Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, um að sameina Menntaskólann á Akureyri, MA, við Verkmenntaskólann á Akureyri, VMA.
Segir Njáll að hann efist um að áformuð sameining muni þjóna skólasamfélaginu á Akureyri vel.
„VMA og MA hafa verið grundvallarstoðir í samfélaginu hérna fyrir norðan. Það hefur verið styrkleiki samfélagsins á Norðurlandi og landsbyggðinni allri að eiga tvo öfluga framhaldsskóla á Akureyri. Skólar sem koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.“
Að hans mati er ljóst að stöðugt þurfi að leita leiða til að nýta fjármagn sem best og ekki óeðlilegt að leitað sé allra leiða til að nýta skattfé sem best í rekstri skólanna. Þessi leið sé hins vegar ekki rétt.
„Hvar liggja möguleikar í samrekstri til dæmis í tengslum við stoðþjónustu og mögulega í starfsmannahaldi? Leiðin sem hér er boðuð er ekki rétta leiðin að mínu mati,“ segir hann.
Njáll segir að með þessari tillögu finnist honum vegið að skólasögu Akureyrar og telur hann að samfélagið verði einsleitara ef sameiningin nái fram að ganga.
„Við Akureyringar tölum stolt um Akureyri sem skólabæ, þar eigum við merka sögu sem mikilvægt er að halda á lofti.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður og oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, tekur í svipaðan streng og margir þingmenn kjördæmisins og hefur áhyggjur af áformunum.
„Ég hef áhyggjur af þessu og er ekki viss um að þetta sé heppilegasta leiðin til að búa til peninga í menntakerfinu,“ segir hún í samtali við mbl.is.