„Nei, þetta er ekki í lagi. Ég get alveg sagt það,“ segir skemmtikrafturinn og eftirherman Sóli Hólm sem heldur fjölda skemmtana í Bæjarbíói í Hafnarfirði fyrir jólin.
Athygli vekur að miðasala á jólaskemmtanir og jólatónleika hefur færst framar á síðustu árum og nú voru Sóli og fleiri komnir af stað áður en ágústmánuður var liðinn.
Hamagangur Íslendinga í aðdraganda jólanna er oft með hreinum ólíkindum. Á einum mánuði þurfa allir að hitta alla vinahópa sína minnst einu sinni og smala stórfjölskyldunni saman. Ofan á þetta bætast jólaskemmtanir í skólum, jólaglögg og auðvitað jólahlaðborð. Og þá á vitaskuld eftir að undirbúa og halda blessuð jólin.
Síðustu ár hafa jólatónleikar og ýmsar skemmtanir bæst við dagskrána. Fyrir rúmum tíu árum byrjaði Björgvin Halldórsson að selja miða á Jólagesti um miðjan október. Í ár voru auglýsingar um jólaskemmtanir áberandi á forsíðu Tix.is í lok ágúst.
„Í raun er bara alveg glórulaust að þetta sé svona en því miður er ég að detta inn í kúltúr sem ég skapaði ekki. Þetta er orðin einhver lenska að ef þú ætlar ekki að brenna inni með prógrammið þitt þá þarftu að byrja að selja miða ósiðlega snemma. Því miður tek ég þátt í þessu,“ segir Sóli sem hefur blandað sér í þennan slag síðustu ár.
Sóli segir þó að sjá megi jákvæðar hliðar á þessari þróun. Það geti verið hentugt fyrir fólk að koma miðakaupunum frá. „Það getur verið fjárhagslega þægilegt, svona upp á skipulagninguna. Þetta dreifir þá útgjöldunum. Sem hagsýnn heimilisfaðir get ég því sagt að þetta sé frábært,“ segir hann glottandi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.