„Okkur er brugðið“

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir Húsasmiðjuna skoða réttarstöðu sína gagnvart …
Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir Húsasmiðjuna skoða réttarstöðu sína gagnvart Samskipum.

Húsasmiðjan er að skoða réttarstöðu sína gagnvart Samskip vegna ólöglegs samráðs sem Samkeppniseftirlitið hefur sektað bæði Eimskip og Samskip fyrir.

Fyrirtækið var næst stærsti viðskiptavinur Samskipa á árunum 2008-2013, sem er það tímabil sem Samkeppniseftirlitið telur að alvarlegt samráð hafi staðið yfir. 

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir að sérfræðingar fyrirtækisins skoði málið, sem sé gríðarlega umfangsmikið, í ljósi umfangs viðskipta fyrirtækisins við Samskip. 

Eigendaskipti flækja málin 

Eigendaskipti urðu á Húsasmiðjunni um áramótin 2011 og 2012. Var fyrirtækið í framhaldinu rekið á annarri kennitölu en hafði verið. Rannsóknartímabil eftirlitsins nær því til tveggja kennitala fyrirtækisins. Sjálfur tók Árni við sem forstjóri á vormánuðum 2013. 

„Húsasmiðjan tók við réttindum og skyldum fyrra fyrirtækisins að undanskildum nokkrum málum og það er því til skoðunar hvernig þessi mál standa,“ segir Árni. 

Í faglegri skoðun 

„En þetta er í faglegri skoðun. Þetta eru þúsundir blaðsíðna að fara yfir. Okkur er brugðið við þetta en tjáum okkur ekki að öðru leyti á þessu stigi,“ segir Árni.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins er sagt að Samskip hafi náð fram hækkun á samningi við Húsasmiðjuna vegna samráðs.    

Áhugaleysi frá Eimskip 

„Eftir að Húsasmiðjan sagði upp samningi sínum við Samskip vegna mikilla verðhækkana sneri hún sér til Eimskips. Eimskip sýndi engan áhuga á viðskiptum við Húsasmiðjuna. Birtist þetta m.a. í því stjórnendur Eimskips létu hjá líða að hafa samband við Húsasmiðjuna í þrjá mánuði eftir fund með því fyrirtæki í ágúst 2010.“

„Eimskip gaf síðan Húsasmiðjunni í janúar 2011 það hátt verð að fyrirtækið vildi ekki semja við Eimskip. Var verð í tillögu viðskiptastjóra Eimskips að tilboði til þessa mikilvæga viðskiptavinar hækkað eftir aðkomu æðstu stjórnenda Eimskips. Var þetta gert til að virða markaðsskiptinguna,“ segir í ályktun Samkeppniseftirlitsins í skýrslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert