Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður Framsóknarflokksins og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir í samtali við mbl.is alveg ótrúlegt að fylgjast með fólki sem jafnan kallar eftir hagræðingu og skynsemi í ríkisrekstri, tala digurbarkalega um ákvörðun menntamálaráðherra um að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Þau áform ráðherrans voru kynnt fyrr í vikunni og hafa mætt mótmælum fyrir norðan og víðar.
Segist hann telja að fyrst og fremst séu menn að nýta sér málið í pólitískum tilgangi og efast um að þeir sem heyrist hæst í hafi lagt sig fram um að kynna sér málið.
Hefur meðal annars Óli Björn Kárason alþingismaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi nemandi í MA, tjáð sig um mögulega sameiningu og sagt að hún muni ekki styrkja stöðu menntunar á landsbyggðinni.
Segir hann að lykilatriði sé að sameining sem þessi nýtist nemendum og að eftir standi sterkari skóli, bæði faglega og hvað rekstrarforsendur varðar. Það þurfi að vera í forgrunni og leiðarstef í þeirri vinnu sem í gangi er.
„Við eigum ekki að verja peningunum í steinsteypu heldur í það sem máli skiptir, menntunina sjálfa og umgjörð nemenda og starfsfólks.“
Segist hann skilja tilfinningarnar sem liggja að baki gagnrýninni á ákvörðun ráðherra.
„Ég er sjálfur úr Hafnarfirði og skil að fólki sé þetta hjartans mál. Það er einnig vinna í gangi með Flensborgarskólann og Tækniskólann. Þar er verið að skoða hvort og þá hvaða áhrif tilkoma nýs og glæsilegs Tækniskóla til bæjarfélagsins hafi á þær stofnanir sem eru hér fyrir. Þeirri vinnu er ekki lokið, engin niðurstaða liggur fyrir og mikilvægt er að vandað sé vel til verka þannig að gæði náms og góð umgjörð nemenda sé tryggð.”