„Samfélagslegt mál að manna þessa þjónustu“

Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað.
Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur sent tólf barnshafandi konum erindi um að tímabundin lokun fæðinga- og skurðþjónustu stofnunarinnar í september geti haft áhrif á fæðingarstað þeirra.

Eins og mbl.is greindi frá í gær verður fæðinga- og sjúkraþjónusta HSA lokuð frá 10. til 24. september. Ástæðan er sú að ekki tókst að fá svæfingalækni í afleysingar.

Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, segir lokunina óásættanlega fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og að spítalinn hafi reynt eftir fremsta megni að manna stöðuna.

„Það fékkst ekki svæfingarlæknir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir bæði hér heima og erlendis,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is og tekur fram að það geti verið flókið að manna sérhæfðar stöður. Það takist þó yfirleitt en ekki í ár.

Samfélagslegt mál að manna þessa þjónustu

„Í raun og veru er það mín skoðun að það sé samfélagslegt mál að manna þessa þjónustu og heilbrigðiskerfið allt þarf að taka höndum saman til þess að unnt sé að manna þessa staði. Þá er ég að tala um eins og Neskaupstað og Ísafjörð.“

Stofnunin var þó meðvituð um að þessi staða gæti komið upp og voru engar skurðaðgerðir skipulagðar á tímabilinu. Mun lokun þjónustunnar því aðallega hafa áhrif á barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra. 

Að sögn Guðjóns hefur HSA reynt að aðstoða konurnar við skipulagningu þess að sækja þjónustu í öðrum landshlutum. „Eins og beiðnir inn á sjúkrahótel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert