Sáttmáli nær tvöfalt dýrari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra segir í aðsendri grein sem …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra segir í aðsendri grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag að verkefnum samgöngusáttmála þurfi að forgangsraða í samræmi við nýjan veruleika. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlaður kostnaður við verkefni samgöngusáttmálans hefur nær tvöfaldast frá því sem gert var ráð fyrir og er nú 300 milljarðar í stað þeirra 160 milljarða sem uppreiknuð kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir. Upphafleg áætlun var hins vegar upp á 120 milljarða.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Áætlanir stórlega vanmetnar

Bjarni segir þar að eftir því sem verkefninu hafi undið fram hafi komið betur í ljós að upphaflegar áætlanir hafi verið stórlega vanmetnar og virðist það eiga við um nær alla þætti sáttmálans.

Þar á meðal eru stofnvegaframkvæmdir og bendir Bjarni þar á Arnarnesveginn sem gert var ráð fyrir að myndi kosta 2,2 milljarða, en nýlega hafi verið samið við verktaka um að framkvæma verkið fyrir 7,2 milljarða.

Þá geri verðbætt framkvæmdaáætlun sáttmálans ráð fyrir þriggja milljarða framkvæmd við Sæbrautarstokk, en frumdrög kostnaðaráætlunar hljóði nú upp á 27 milljarða, sem er níföldun kostnaðar.

Framkvæmdahluti borgarlínu sé undir sömu sök seldur, nú sé gert ráð fyrir 126 milljarða framkvæmd í stað 67 milljarða.

Ný krafa á ríkið upp á 40 milljarða

Þrátt fyrir breyttar forsendur sé ekki gert ráð fyrir viðbótarframlagi sveitarfélaganna vegna þessa, heldur hafi þau lagt mikla áherslu á að ríkið taki þátt í rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem hingað til hafi verið á þeirra ábyrgð og segja megi að þar sé komin fram ný krafa á ríkið upp á um 40 milljarða.

Þá sé nú gert ráð fyrir að net hjólastíga muni kosta 36 milljarða í stað 8 milljarða áður.

Bjarni leggur áherslu á að sáttmálinn verði endurskoðaður.

„Augljóst er að upphafleg áform munu ekki ganga eftir og ræða þarf um málið út frá þeirri staðreynd. Við þurfum að forgangsraða verkefnum í samræmi við nýjan veruleika,“ segir Bjarni.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert