Slökkvilið var kallað út í nótt til þess að slökkva eld í rafhlaupahjóli í vesturbæ. Er þetta annað sinn á seinasta sólarhring sem slökkvilið hefur þurft að sinna slíku verkefni.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði var rafhlaupahjólið inni í bílskúr við Freyjugötu í Vesturbæ og þurfti að slökkviliðið að reykræsta skúrinn.
Í gærkvöldi kom upp eldur í rafhlaupahjóli sem var í geymslu við heimahús í Kópavogi. Rafhlaupahjólið var í hleðslu þegar sá eldur kom upp.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að síðasta sólarhringinn hafi þurft að fara í tvö verkefni þar sem kviknað hefur í út frá rafmagnshlaupahjóli.
„Við höfum brýnt fyrir fólki, og gerum það áfram, að hlaða ekki rafmagnshlaupahjól innandyra, nota þau hleðslutæki sem ætluð eru hjólinu og ekki geyma hjólin inni í íbúðarrýmum,“ segir í tilkynningunni.
„Í heildina voru þetta 7 verkefni fyrir dælubílana en meðal annarra verkefna voru vatnstjón og pottur á eldavéla. Að auki voru 119 boðanir fyrir sjúkrabifreiðar í nótt en af þeim voru 34 forgagnsverkefni.“