„Allir komnir undir læknishendur“

Hér má sjá rútuna á hliðinni.
Hér má sjá rútuna á hliðinni. mbl.is/Jón Sigurðsson

„Það eru allir sem voru í rútunni komnir undir læknishendur. Það er búið að flytja fólk í þyrlu og í sjúkraflugi til Reykjavíkur og svo var fólk flutt á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri,“ sagði Vilhjálmur Stefánsson lögreglumaður á Norðurlandi vestra í samtali við mbl.is.

Hóp­ferðabif­reið lenti út af veg­in­um rétt sunn­an við Blönduós á sjötta tím­an­um í morg­un. Í bifreiðinni voru 23 farþegar auk ökumanns og að sögn Vilhjálms voru flestir farþeganna í bílbelti. Fjöldahjálpastöð hefur verið opnuð á Akureyri.

„Þetta var alvarlegt slys enda er þyrlan ekki að flytja fólk á sjúkrahús nema eitthvað alvarlegt sé í gangi. Það var þó nokkur tími liðinn frá slysinu þar til ég kom á vettvang. Aðkoman var eins og gefur að skilja ekki góð. Það virðist eins og rútan hafi runnið á hliðina á mjög stuttum kafla. Við höfum ekki náð að tala vel við ökumanninn enn sem komið er. Hann var í áfalli eins og flestir sem í rútunni voru,“ segir Vilhjálmur.

Allt til­tækt lið sjúkra­flutn­inga­manna og slökkviliðsmanna á Blönduósi, Hvammstanga, Sauðár­króki og Búðar­dal var kallað út auk þeirra tækja­bíla sem eru fyr­ir hendi á þessu svæði.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka