„Eins og staðan er núna þá er það fyrst og fremst rannsóknarþátturinn sem er kominn inn á okkar borð og næsta verkefni er að rannsaka tiltrög slyssins og ræða við þá aðila sem tengdust þessu slysi og afla gagna,“ sagði Höskuldur Erlingsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi vestra í samtali við mbl.is.
Rúta með 23 farþegum valt skammt frá Blönduósi á sjötta tímanum í morgun og voru allir fluttir á sjúkrahús að ökumanni meðtöldum. Sjö af þeim voru fluttir á Landspítalann í Reykjavík með þyrju Landhelgisgæslunnar og í sjúkraflugi en aðrir voru fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri.
Að sögn Höskuldar er slysið til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa ásamt rannsóknardeild lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.
„Síðustu fréttir sem okkur hafa borist eru þær að er að við vitum ekki til þess að neinn sé í lífhættu en auðvitað var þetta töluvert mikið slys og fólk slasaðist. Það var gríðarlega mikill viðbúnaður og þegar svona stórt slys á á sér stað er allt undirlagt. Það eru allir sem bregðast við og í umdæmi sem er ekki stórt í sniðum af viðbúnargetu,“ segir Höskuldur.
Höskuldur vill nota tækifærið til að skila kærum þökkum til allra viðbragðsaðila sem að slysinu komu og allir hafi þeir staðið sig gríðarlega vel við afar krefjandi aðstæður.
Fram kemur á RÚV að það hafi verið starfsmenn Akureyrarbæjar sem hafi verið í rútunni en þeir voru á heimleið eftir námskeið og ráðstefnu í Portúgal.