Grunur um að bílstjórinn hafi dottað við akstur

Frá vettvangi nú í morgun.
Frá vettvangi nú í morgun. mbl.is/Jón Sigurðsson

Grunur leikur á að bílstjóri rútubifreiðarinnar, sem valt út af þjóðveginum sunnan við Blönduós snemma í morgun, hafi dottað við aksturinn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og allir tiltækir viðbragðsaðilar voru kallaðir út upp úr klukkan fimm í morgun þegar tilkynning barst um slysið. Þá var samhæfingarmiðstöð almannavarna virkjuð.

Rútan var á vegum SBA-Norðurleiðar og var að flytja farþega til Akureyrar, starfsmenn þjónustumiðstöðva í sambýlum á Akureyri, þegar slysið varð skammt frá bænum Brekku sunnan við Blönduós.

Slysið varð á Norðurlandsvegi skammt frá bænum Brekku sunnan við …
Slysið varð á Norðurlandsvegi skammt frá bænum Brekku sunnan við Blönduós. Samsett mynd

Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar, segist í samtali við mbl.is telja líklegast að bílstjórinn hafi dottað við aksturinn.

„Það eru allar líkur á að viðkomandi hafi dottað eitthvað, það er einfaldasta skýringin,“ segir Gunnar. Segir hann þó að málið sé ekki komið á rannsóknarstig.

Rúta valt á sömu slóðum árið 2020

Í janúar 2020 valt rúta út af veginum á sama svæði skammt frá bænum Öxl. Tæpir tveir kílómetrar eru á milli bæjanna Brekku og Axlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka