Hafnar sök í manndrápsmáli

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri sem sakaður er um að hafa ráðist að meðleigjanda sínum, með hníf á þjóðhátíðardaginn 17. júní með þeim afleiðingum að meðleigjandinn lést af sárum sínum, neitaði í morgun sakargiftum fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem málið var þingfest. Atvikið átti sér stað í Drangahrauni í Hafnarfirði.

Maðurinn, Maciej Jakub Tali, pólskur ríkisborgari, er sakaður um að hafa stungið meðleigjanda sinn fimm sinnum með hníf, þar af þrjár í efri hluta búks. Ein þeirra er talin hafa valdið dauða meðleigjandans, en stungan náði inn í hjarta.

Rúv greinir frá því að maðurinn hafi við þingfestingu í morgun neitað sök, en gengist við því að hafa stungið meðleigjanda sinn í sjálfsvörn. Er það í taki við það sem áður hafði komið fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum þar sem hann sagðist hafa stungið meðleigjanda sinn ítrekað í sjálfsvörn. Maðurinn var handtekinn á vettvangi morðsins þar sem hann var ataður í blóði.

Lögreglan hefur þó lagt fram gögn úr síma mannsins, en þar er meðal annars að finna skilaboð þar sem hann segir: „þessi vitleysingur fyrst drep ég hann svo hengi ég mig“.

Hinn látni læt­ur eft­ir sig eig­in­konu og stjúp­barn í Póllandi auk ætt­ingja á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert