Nokkrir hinna slösuðu í sjúkraflug frá Akureyri

Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir á Landspítalanum með þrjá hinna slösuðu á …
Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir á Landspítalanum með þrjá hinna slösuðu á níunda tímanum í dag. Ljósmynd/Jóhann Kristjánsson

Auk þeirra þriggja sem þyrla Landhelgisgæslunnar flutti á Landspítalann eru nokkrir hinna slösuðu á leið með sjúkraflugi frá Akureyri suður til Reykjavíkur að sögn Hjördísar guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna.

Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð um klukkan hálfsex í morgun og mikill viðbúnaður fór af stað.

Segir hún að Sjúkrahúsið á Akureyri muni þá taka við einhverjum hinna slösuðu einnig sem fluttir verða frá slysstað með sjúkrabílum.

Hjördís segir mæða mikið á viðbragðsaðilum og að nú taki við að koma fólki undir læknishendur og fá hjálp við það áfall sem þetta er.

Í janúar árið 2020 valt rúta á sömu slóðum en þá var opnuð fjöldahjálparmiðstöð á Blönduósi. Hjördís segir það hluta af því ferli sem fer af stað þegar um svona slys er að ræða.

„Ég heyri núna að þyrlan er að lenda við spítalann,“ segir Hjördís sem stödd er í nágrenni Landspítalans.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu er þjóðvegurinn lokaður fyrir stóra bíla en öðrum stýrt í gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert