„Tvær erlendar konur með læti“

Biou, vinstra megin, og Babaei ræða sannfæringu sína og baráttu …
Biou, vinstra megin, og Babaei ræða sannfæringu sína og baráttu við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum báðar harðir dýraverndunarsinnar og erum komnar hingað til að láta raddir okkar heyrast fyrir hvalina, við viljum að veiðunum verði hætt,“ segir hin breska Elissa Biou í samtali þeirra Anahitu Babaei frá Íran við mbl.is en það er Biou sem hefur orð fyrir þeim.

Biou og Babaei hlekkjuðu sig við möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og 9 í Reykjavíkurhöfn á mánudaginn og voru í kjölfarið handteknar en eru nú komnar í Hvalfjörðinn ásamt fleiri mótmælendum frá ýmsum samtökum til að mótmæla veiðum í kjölfar þess er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimilaði hvalveiðar á nýjan leik.

Munu ekki leggja árar í bát

„Við erum hérna við hvalstöðina núna og höfum séð þrjá hvali dregna inn í morgun, þar af eina kú sem var með tvö skutulsár, annað á höfðinu, svo það lítur út fyrir að fyrsta dráp tímabilsins brjóti í bága við verndarlöggjöf,“ segir Biou af stöðu mála í Hvalfirði.

Kveðst hún í framhaldinu munu hafa auga með öllum hvölum sem koma í hvalstöðina og meta hvort þeir hafi verið drepnir á ómannúðlegan hátt. „Við tilheyrum hópi fólks sem hefur fylgst með málinu mánuðum saman og við munum ekki leggja árar í bát,“ segir Bretinn af einurð.

Hvaða samtökum tilheyrið þið annars?

„Við erum svo nýjar í þessu að við erum eiginlega ekki komnar með neitt nafn enn þá, okkar fyrsta aðgerð var að hindra að bátarnir legðu í haf og þar teljum við okkur hafa haft erindi sem erfiði,“ svarar Biou.

Snýst um grimmdina

Aðspurð kveðst hún ekki vita hve lengi þær stöllur hafi viðdvöl á landinu en telur að borgaraleg óhlýðni þeirra Babaei, sem hún kveður ekki dæmigerða fyrir Íslendinga, hafi að minnsta kosti vakið þarfa umræðu um hvalveiðar. „Okkur hefur borist fjöldi kveðja frá Íslendingum sem deila okkar viðhorfum og við treystum því að það fólk haldi áfram umræðu og ræði ekki síður málið við stjórnmálamenn ykkar,“ heldur hún áfram.

Kveðst Biou ekki ganga þess dulin að fjöldi fólks sé einnig ósammála hvalverndarsinnum, „og við skiljum það alveg, við erum tvær erlendar konur með læti, en þetta málefni hefur ekkert með Íslendinga sem þjóð að gera, þetta snýst um þá grimmd sem í því felst að drepa þessar skepnur og við vonum að þeir sem eru ósammála okkur taki líka þátt í umræðunni svo unnt sé að gera breytingar og fara að vilja fólksins“, segir Elissa Biou að lokum fyrir hönd þeirra Anahitu Babaei, sem staddar eru við mótmæli í Hvalfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert