Anton Karl Ingason, dósent í íslenskri málfræði og máltækni við Háskóla Íslands (HÍ), hlaut á dögunum virtan styrk upp á um 218 milljónir króna frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC) til verkefnis sem miðar að því að skýra hvernig málnotkun fólks breytist á lífsleiðinni.
Verkefnið heitir EILisCh (Explaining Individual Lifespan Change) og verður verkefninu stýrt við HÍ, en verkefnið er hugarfóstur Lilju Bjarkar Stefánsdóttur, doktorsnema í málvísindum, sem einnig mun vinna að verkefninu.
Þá verður mál íslenskra þingmanna kannað og viðtöl tekin við bæði núverandi og fyrrverandi þingmenn til að kortleggja mál þeirra og sögulegt samhengi þeirra sem einstaklinga.
Þetta er stærsti styrkur sem fengist hefur til rannsókna í íslenskum málvísindum en Anton er ekki eini íslenski vísindamaðurinn sem hlaut svo háan styrk á dögunum. Íslenski stjarneðlisfræðingurinn Ása Skúladóttir hlaut einnig jafn háan styrk frá ERC til að vinna að verkefni sínu „Treasures: Digging into dwarf galaxies“.
„Þetta gengur út á það að skilja hvernig fólk breytir málnotkun sinni milli tímabila í lífinu og það er einstakt gagnasafn sem liggur í Alþingisræðunum. Við erum að nota það til að kortleggja þetta,“ segir Anton í samtali við mbl.is.
Þó verkefnið sé fyrst og fremst fræðilegt, segir Anton að það sé hagnýtni í því sem snýr að frávikum sem verða þegar fólk verður eldra og veikist. Þar komi klínísk málvísindi inn í myndina. „Það getur hjálpað okkur að geta spáð fyrir og greina sjúkdóma.“
Hins vegar bendir Anton á að mál þingmanna sé yfirleitt í formlegri kantinum „en jafnvel uppi í pontu sjáum við mun eftir aðstæðum hversu formlegt málið er“.
„Fólk er til dæmis með formlegra mál þegar það fer með framsöguræður undirbúnar heldur en þegar það svarar. Svo getur það líka bara farið eftir aðstæðum í lífinu hjá hverjum og einum,“ segir hann.
„Ég er verkefnisstjóri í þessu en ég var þegar byrjaður að vinna að þessu með Lilju Björk Stefánsdóttur, doktorsnema í málvísindum sem er að einbeita sér að lífsleiðabreytingum,“ segir Anton. „Svo er þetta alþjóðlegt verkefni að því leyti að við erum að vinna með mikið af fólki erlendis.“
Nefnir hann einnig að flestar þær rannsóknir sem teknar eru til fyrirmyndar í þessu verkefni skoði yfirleitt aðeins tvo tímapunkta í lífsleiðinni, til dæmis að bera mál einstaklings þegar hann er tvítugur saman við það þegar hann er fimmtugur. „En þegar maður hugsar það sem graf verður maður þá að bara að draga beina línu á milli,“ segir málfræðingurinn.
„Það er gríðarlega mikil vinna á bak við það að sækja um svona styrk,“ segir Anton og bætir við að lokum að hann sé gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið.