Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hitti nemendafélög MA og VMA fyrir helgi vegna hugmynda um sameiningu skólanna.
Segist hann skilja að nemendur skólanna hafi áhyggjur en er tilbúinn að „byggja öfluga brú“ sem stuðli að því að menning skólanna muni ekki tapast.
„Ég sagði við þau þegar ég hitti þau fyrir norðan – hvatti þau til að láta í sér heyra og finnst jákvætt þegar ungt fólk lætur sig málin varða.
En að sama skapi þá vildi ég hvetja þau til þess að nálgast umræðu um þessi mál á þann veg að ræða það hvernig við getum eflt framhaldsskólakerfið,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is að loknum ríkisráðsfundi í dag.
Hann segist hafa skilning á því að nemendur hafi áhyggjur af þeirri menningu, sögu, uppbyggingu og félagslífi skólanna sem kann að tapast við sameiningu.
„Ég sagði það við forystu beggja nemendafélaga að við myndum hlutast til um samtal þarna á milli til þess að sjá hvort við gætum ekki byggt öfluga brú þar,“ segir Ásmundur.